Ekki stendur til að senda íslenska björgunarsveitarmenn til Marokkó enn sem komið er. Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir íslensku sveitirnar hins vegar fylgjast grannt með framvindu mála.
„Það hefur verið skoðað og við höfum verið að fylgjast með þróun mála alveg frá því að skjálftinn reið yfir,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Spánverjar sendu í gær 86 björgunarmenn ásamt 8 leitarhundum til að aðstoða við leitaraðgerðir í kjölfar mannskæðs jarðskjálfta í landinu. Skjálftinn reið yfir um sjötíu kílómetra suðvestur af ferðamannaborginni Marrakesh, og eyðilagði heilu þorpin í hæðum Atlas-fjallgarðsins.
Jón Þór segir að eins og er sé sérstök þörf á björgunarfólki með rétta tungumálakunnáttu og því haldi íslensku sveitirnar ekki af stað til Marokkó enn sem komið er.
„Eins og staðan er núna þá er mest þörf á arabískumælandi fólki, sem við eigum ekki,“ segir Jón Þór og bætir við að íslensku sveitirnar séu hins vegar boðnar og búnar sé þess óskað.
Jón Þór segir þó annað ferðalag á döfinni hjá Landsbjörgu, en átta félagsmenn halda í þjálfunarbúðir í rústabjörgun, í Fairfax í Virginíuríki.
Að sögn Jóns Þórs standa Bandaríkjamenn framarlega í rústabjörgun og því mikil þekking og reynsla sem íslensku liðarnir fá að afla sér á námskeiðinu.
Bandaríkjamönnunum hafi þótt mikið til íslensku sveitanna koma í Tyrklandi í vetur, og óskað eftir áframhaldandi viðveru þeirra og samstarfs. Þeir hafi síðar boðið Íslendingunum í þjálfunarbúðirnar og styrkja þjálfunina.