Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst leggja fram frumvarp í haust þess efnis að auka endurgreiðslur vegna tæknifrjóvgana til muna. Til að fjármagna það vill hún fella niður niðurgreiðslu á valkvæðum ófrjósemisaðgerðum.
Í fyrirhuguðu frumvarpi verða lagðar til breytingar á greiðsluþátttöku hins opinbera vegna tæknifrjóvgana annars vegar og ófrjósemisaðgerða hins vegar.
Þetta segir Hildur í samtali við mbl.is, en vakti hún fyrst athygli á fyrirhuguðu frumvarpi í hlaðvarpsþætti Þjóðmála.
Núverandi niðurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands, SÍ, á tæknifrjóvgunum er 5% en leggur Hildur til að niðurgreiðslan verði 75%. Þannig myndi kostnaður fyrir konu við fyrstu tæknifrjóvgun fara úr 566.000 krónum niður í 147.500 krónur.
Hildur leggur svo til að niðurgreiðsla við aðra til fjórðu tæknifrjóvgun fari úr 65% í 90%.
Einnig verður lagt til að tæknifrjóvgunarmeðferðir vegna fyrirsjáanlegrar ófrjósemi í kjölfar geislameðferðar, lyfjameðferðar og beinmergsflutnings verði gerð gjaldfrjáls.
En Hildur segir ríkið þurfa að forgangsraða fjármunum sínum og því mun hún leggja til í frumvarpinu að fella niður endurgreiðslu SÍ til einstaklinga sem fara í valkvæðar ófrjósemisaðgerðir.
„Þrátt fyrir að mér finnist sjálfsagður sá réttur fólks að fara í slíkar aðgerðir finnst mér ekki nauðsynlegt að ríkið standi straum af þeim kostnaði eins og á til dæmis við um laser augnaðgerðir. Nú sérstaklega á verðbólgutímum þarf að huga vel að því að hægja á útgjaldavexti hins opinbera,“ segir hún og bætir við:
„Það skiptir því máli að í þessu frumvarpi felst engin útgjaldaraukning heldur þvert á móti skila þessar tilfærslur á kostnaðarþátttökunni nokkra tugi milljóna í ríkissjóð árlega.“
Hún segir að frumvarpið verði enn eitt skrefið sem hún taki í átt þess að reyna hjálpa fólki að verða foreldrar.
„Ég vil gera það sem ég get til þess að hjálpa fólki sem er í þeirri stöðu að geta ekki eignast börn eða eiga í erfiðleikum með það. Ég veit að þessar breytingar munu skipta margt fólk heilmiklu máli.“
Að lokum kveðst Hildur eiga von á stuðningi við þetta frumvarp enda sé það sanngjarnt og krefjist ekki nýrra fjármuna frá ríkinu, að hennar sögn.