Keyra inn á afskekkt svæði með neyðarpakka

Hjónin Birta og Othman reka nú styrktarsöfnun fyrir fjöldahjálp í …
Hjónin Birta og Othman reka nú styrktarsöfnun fyrir fjöldahjálp í Marokkó. Samsett mynd

„Það eru bara hrikalegar sögur frá þessum svæðum. Það er svo heitt á daginn að það eru lík af fólki og dýrum sem eru byrjuð að rotna. Það er ógeðsleg lykt þarna,“ segir Birta Árdal Bergsteinsdóttir, Íslendingur í Marokkó. 

Í samtali við mbl.is segir hún ástandið í kjölfar jarðskjálftans sem þar reið yfir vægast sagt hrikalegt. Hefur hún ásamt eiginmanni sínum hafið styrktarsöfnun til að afla nauðsynja fyrir fólk á svæðum sem urðu verst fyrir hörmungunum.

Birta er búsett ásamt eiginmanni sínum, Ot­hm­an Karou­ne, og fjórum dætrum í Marokkó, í borginni Essaouira sem er talsvert frá upptökum jarðskjálftans.

Sum þorp afskekkt, önnur óaðgengileg

„Við erum samt frekar nálægt á marokkóskum skala, miðað við hvað Marokkó er stórt, en Guði sé lof þá voru ekki miklar skemmdir í okkar bæ,“ segir Birta. 

Hún segir fjölskylduna ekki persónulega þekkja neina sem hafi látist en eigi marga vini sem eigi fjölskyldur á Atlasfjallasvæðinu, þar sem afleiðingar skjálftans eru verstar. 

Aðstæður séu virkilega erfiðar enda mörg þorp sem séu þegar afskekkt, en algerlega óaðgengileg vegna grjótfalls í kjölfar skjálftans.

„Í öðrum þorpum þá eru hreinlega bara ekki vegir og þú þarft að labba í tvo klukkutíma til að komast inn í þorpin,“ bætir hún við.

Keyra inn á erfið svæði með matarpakka

Þau hjónin hafi því kallað saman sitt nærsamfélag til að safna nauðsynjum. Samstaðan hefur að sögn Birtu hefur verið ótrúleg og allir af vilja gerðir til að hjálpa náunganum og gefa af sér.

Birta segir söfnunina í heimaborg þeirra hjóna snúa að því að safna brýnum nauðsynjum eins og teppum, fötum, skóm og tjöldum. 

Þau safni einnig fé bæði á Íslandi og á alþjóðavísu til að fjárfesta í mat og til að búa til nauðsynjapakka. Eiginmaður hennar ásamt öðrum mönnum, reyni svo að keyra á fjórhjóladrifnum bílum inn á þau svæði sem erfitt sé að komast að, en hafi mörg hver orðið verst fyrir skjálftanum.

Hafa ekki tök á að grafa fólk undan rústunum

„Við eigum veitingastað hér í Essaouira og við höfum verið að búa til samlokur í kvöld einhver hundruð samloka. Þá munum við vera með matarpakka þar sem fólk getur borðað strax og síðan erum við með nauðsynjapakka sem fólk getur kannski lifað á í viku.“ 

Í nauðsynjapakkanum verði þurrmatur, vökvi, kveikjari og sjúkrakassi. Meðal þess sem fylgi sjúkrakassanum séu sýklalyf, sótthreinsandi og klór til að fólk geti gætt að hreinlæti að einhverju leiti, þar sem lík liggi á víð og dreif.

„Dauðsföllin eru svo mörg og fólk er ekki með græjur til að grafa fólkið undan rústunum.“

Hver einasta króna fer til fólksins

Birta og Othman halda úti reikningi hér á landi, í nafni Birtu þar sem þau safna fjárframlögum til að kaupa nauðsynjar og styðja við samfélögin í Marokkó, sem hafa orðið fyrir jarðskjálftanum. 

Hún segir að í fyrstu hafi hún vissulega búist við því að yfirvöld myndu sjá um stuðning við fólkið, en svæðið sé einfaldlega of stórt til að þau hafi tök á því. Henni líði vissulega eins og þau mættu gera meira, en nú taki einstaklingar og samtök höndum saman til að hjálpa fólki. 

Þegar hefur safnast í sarpinn að hennar sögn og hafa þau þegar safnað um 400.000 á íslenska reikninginn, en þau einnig úti alþjóðlegri söfnun. Í allt hafa þau safnað um 1,5 milljónum að sögn Birtu.

„Það má treysta því að hver króna sem er gefin fer beint til fólksins, í nauðsynjar,“ segir Birta og ítrekar að ekkert fjármagn fari í uppihald sjálfboðaliða. „Þetta fer bara í beint æð.“

Hægt er að fylgjast með framvindu söfnunarinnar á Instagram-reikningi þeirra hjóna. Til að styrkja við jarðskjálftahjálp þeirra hjóna er hægt að leggja inn fjárframlög á eftirfarandi reikning:

Reikningsnúmer 0549-26-002689
Kennitala. 260191-2689

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert