„Kýrnar splundruðust í allar áttir“

Þrjár kýr drápust við áreksturinn og aflífa þurfti eina en …
Þrjár kýr drápust við áreksturinn og aflífa þurfti eina en mikil mildi þykir að ekki hafi orðið slys á fólki að sögn Hermanns Inga Gunnarssonar, bónda í Klauf. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Akureyri var kölluð út aðfaranótt sunnudags vegna umferðaróhapps sem átti sér stað á þjóðveginum nálægt bænum Klauf í Eyjafjarðarsveit en bíl var ekið á kúahóp sem var á veginum.

Fernt var í bílnum og var einn farþegi fluttur til skoðunar á sjúkrahúsinu á Akureyri með minniháttar meiðsli að sögn Kára Erlingssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Þetta var mikið áfall

Þrjár kýr drápust við áreksturinn og aflífa þurfti eina en mikil mildi þykir að ekki hafi orðið slys á fólki að sögn Hermanns Inga Gunnarssonar, bónda í Klauf. Hann lýsir atburðarásinni þannig:

„Þetta var mikið áfall. Eins og kemur stundum fyrir þá opna kýr hlið og í þessu tilfelli brutu þær upp hurð hjá okkur og sluppu út. Þetta voru allar kýrnar á bænum, 70 talsins. Við hjónin vorum ásamt tengdapabba alla nóttina að reyna að koma kúnum inn. Okkur hafði tekist að koma öllum nema tíu inn. Þær voru nálægt veginum.“

Reyndum að hægja á umferðinni

Hermann Ingi segir unglingapartý hafa verið innar í sveitinni og umferðin mjög mikil.

„Það kom bíll að þeim. Hann hægði ferðina og rak þær norður eftir veginum. Þar með misstum við þær frá bænum og þær enduðu svolítið í burtu á túni hjá næsta nágranna. Þegar við vorum búin að koma hinum kúnum í skjól þá fórum við að leita að þessum tíu sem eftir voru. Við vorum með bíla á veginum sem voru með blikkandi ljós og reyndum með því að hægja á umferðinni, sem var gríðarlega mikil og óvenju mikil hér í sveitinni á þessum tíma. Bílarnir óku mjög greitt.

Ég fann svo kýrnar og þegar ég er á leið með þær heim í vegkantinum þá missi ég þær aðeins frá mér. Þá kom bíll á miklum hraða og keyrði á nokkrar kýr sem voru komnar upp á veginn. Þær splundruðust í allar áttir. Þrjár drápust samstundir, eina þurftum við að aflífa á staðnum og svo er spurning hvort ein lifi þetta af. Við erum sennilega að missa fimm kýr,“ segir Hermann Ingi í samtali við mbl.is.

Hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum

Hermann Ingi segir að bíllinn sem lenti á kúnum sé ónýtur en lögregla og sjúkrabifreið voru kölluð á staðinn.

„Það voru fjórir ungir krakkar í bílnum og við hittum þá og foreldrar ökumannsins komu á staðinn. Þetta var erfitt ástand og við vorum í stórhættu. Ef ég hefði verið nær kúnum þegar bíllinn lenti á þeim þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Ég tók aldrei eftir því að bíllinn hægði á sér fyrr en hann lenti á kúnum. Þetta er mjög mikið fjárhagslegt tjón fyrir okkur og það er tilfinningalegt áfall að horfa upp á þetta gerast. Auðvitað er þetta bara slys en eins og ég sagði var umferðin gríðarlega mikil og hvað sem við gerðum til að hægja á henni þá tókst það ekki,“ sagði Hermann Ingi.

Kári Erlingsson, varðstjóri lögreglunnar á Akureyri, staðfestir að lögreglunni hafi borist tilkynning um umferðaróhapp við Klauf í Eyjafjarðarsveit um klukkan hálf tvö aðfaranótt sunnudags. „Það var gerð lögregluskýrsla eins og gert er þegar umferðarslys á sér stað,“ segir Kári.

Lögreglan á Norðurlandi eystra lýsti í gær eftir ökumanni sem ók bif­reið sinni af vett­vangi eft­ir að hafa ekið á kú í Hörgár­dal við Jónas­ar­lund á Þjóðvegi 1 rétt eft­ir klukk­an hálf fjög­ur í gær.  Að sögn Kára er ökumaðurinn ekki fundinn en hann segir þó að einhverjar ábendingar hafi borist. Aflífa þurfti kúna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert