10,5 milljarða innspýting

Í frumvarpinu segir að staða Landspítalans sem stærstu heil­brigðisstofnunar landsins …
Í frumvarpinu segir að staða Landspítalans sem stærstu heil­brigðisstofnunar landsins verði styrkt. Þá kemur fram að uppbygging húsnæðis Landspítala við Hringbraut sé stærsta beina fjárfestingarverkefni ríkisins frá upphafi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs eru heilbrigðismál í forgrunni nú líkt og áður. Stærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýja Landspítalans en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 milljarða og verður tæplega 24 milljarðar kr. á árinu.

Fram kemur í frumvarpinu, að spítalinn, sem rísi nú hratt, sé stærsta fjárfestingaverkefni ríkisins í sögunni og muni gjörbylta aðstöðu og umgjörð heilbrigðisþjónustu í landinu.

Uppsteypa meðferðakjarna á að ljúka fyrri hluta árs 2024. Þá verður ráðist í framkvæmdir við uppsteypu rannsóknahúss og bílastæðahúsa við Hringbraut ásamt klæðningu útveggja meðferðakjarna, að því er fram kemur í frumvarpinu. 

Grafík/Fjármálaráðuneytið

„Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 ma.kr. að raungildi milli ára en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna,“ að því er segir í frumvarpinu. 

Tekið er fram að uppbygging húsnæðis Landspítala við Hringbraut sé stærsta beina fjárfestingarverkefni ríkisins frá upphafi. Í fjármálaáætluninni sé líkt og í fjármálaáætlun 2023–2027 gert ráð fyrir nauðsynlegum fjárveitingum til uppbyggingar meðferðarkjarna. Nú sé unnið að áætlun fyrir annan áfanga í uppbyggingunni. Þar verði einnig tekin inn áætlun um upplýsingatækni, tæki og aðra innviði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert