Á árinu 2024 er gert ráð fyrir að 46 milljarða kr. halli verði á heildarafkomu ríkissjóðs sem samsvarar 1% af vergri landsframleiðslu og hefur afkoman ekki verið betri síðan 2018, að því er fram kemur í nýju frumvarpi til fjárlaga.
Þar segir jafnframt, að stjórnvöld séu nú í raunhæfri stöðu að ná fram jákvæðum heildarjöfnuði ríkisins áður en langt um líði.
„Þá er áætlað að frumjöfnuður ríkissjóðs, þ.e. afkoma án vaxtagjalda og -tekna, verði jákvæður um rúmlega 28 ma.kr., eða 0,6% af VLF á næsta ári. Áætlað er að skuldir ríkissjóðs á mælikvarða skuldareglu1 laga um opinber fjármál verði í lok næsta árs um 1.400 ma.kr. eða 30,9% af VLF og lækkar hlutfallið milli ára,“ segir enn fremur.
„Gangi þessar áætlanir eftir mun hafa tekist að festa í sessi þann mikla bata sem orðið hefur á afkomu- og skuldahorfum ríkissjóðs á undanförnum misserum. Mikill viðsnúningur hefur orðið á rekstri ríkissjóðs eftir þann gríðarmikla halla sem einkenndi reksturinn í kjölfar heimsfaraldursins árin 2020–2021. Þannig var halli á frumjöfnuði ríflega 190 ma.kr. hvort ár eða sem nemur 6–7% af VLF. Umfang batans hefur nýlega verið staðfest með ríkisreikningi fyrir árið 2022 og reyndist frumjöfnuður ríkissjóðs hafa verið orðinn lítillega jákvæður það árið,“ að því er fram kemur í frumvarpinu.