Áherslur fjárlaga taka mið af verðbólgu

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviða og almannaþjónustu einkennir komandi fjárlög komandi árs þar sem ríkið leitast til þess að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í kynningu um fjárlög ársins 2024.

„Talsverð spenna hefur haldist í hendur við mikinn slátt í hagkerfinu og fylgifiskur þess birtist m.a. í verðbólgu,“ segir á vef Stjórnarráðsins.

„Áherslur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2024, sem lagt er fram í dag, taka mið af þessum veruleika.“

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra kynn­ti frum­varp til fjár­laga fyr­ir árið 2024 í fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­inu í morgun.

Grafík/Fjármálaráðuneytið

Frumjöfnuður 100 milljörðum betri

Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði hátt í 100 milljörðum króna betri í ár en en áætlað var við samþykkt fjárlaga ársins 2023. Tekjur verða 50 milljörðum meiri en útgjöld að frádregnum vaxtagjöldum og vaxtatekjum.

Stutt við heimili samhliða betri afkomu

Áhersla verður lögð á að verja kaupmátt fólks og að styrkja húsnæðis og barnabótakerfin.
Gert er ráð fyrir því að persónuafláttur muni hækka um rúmlega 5.000 krónur á mánuði um næstu áramót. Skattleysismörk hækki sömuleiðis um rúmlega 16.000 krónur.

„Einstaklingur með 500 þúsund í mánaðartekjur mun því greiða ríflega 7 þúsund kr. minna í skatt í janúar 2024 heldur en hann gerði í desember 2023,“ segir í tilkynningunni.

Í frumvarpinu er eru 17 milljarðar króna ráðstafaðir til að hægja á vexti útgjalda. Gert er ráð fyrir að launakostnaður stofnanna lækki um 5 milljarða króna.

„Vörður verður þó áfram staðinn um framlínustarfsemi, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála.“

Hagræða í opinberum innkaupum

Stefnt er að því að hagræða um 4 milljarða í opinberum innkaupum. Jafnframt verður aukið aðhald innan ráðuneyta og dregið úr nýjum verkefnum en með því náist allt að 8 milljarða króna hagræðing.

Ráðist verður í aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármála. Fyrsta skrefið verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð.

„Innleitt verður nýtt, einfaldara og sanngjarnara kerfi þar sem greiðslur eru í auknum mæli tengdar notkun svo hægt verði að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi vegakerfisins.“

Grafík/Fjármálaráðuneytið

Gistináttaskattur tekinn upp að nýju

Að óbreyttu er gert ráð fyrir að gistináttaskattur verði aftur tekinn upp um áramót og leggst hann þá einnig á skemmtiferðaskip. Skatturinn var felldur niður tímabundið á tímum faraldursins.

Krónutölugjöld, fyrir utan beifreiðagjöld, verða ekki látin fylgja verðlagi ólíkt fyrra ári þegar þau héldust í við verðlagsforsendur.

„Þannig munu þau aðeins uppfærast um 3,5% um áramót en með því eru skattarnir um 3 ma.kr. lægri en ef þeir hefðu fylgt verðlagi.“

Engin stór ný útgjaldamál

Frumvarpið hefur ekki að geyma stór ný útgjaldamál. Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum. Þær eru áætlaðar um 68 milljarðar króna á næsta ári.

„Hins vegar er áfram fjárfest í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.“

Fjárheimild ársins til byggingar Landspítala er um 24 milljarðar króna og hækkar um nærri 10,5 milljarða milli ára. Samanlagt er áætlað að fjárfest verði í spítalanum fyrir ríflega 45 milljarða í ár.

Styðja uppbyggingu 1000 íbúða 

Í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verða þær 1.000 á ári.

Einnig verður horft til frekari lánsfjárheimildar hlutdeildarlána í samræmi. Gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við aðra umræðu frumvarpsins.

Önnur útgjöld

Gert er ráð fyrir að útgjöld vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði fyrirtækja muni nema um 15 milljarða króna á næsta ári.

Næstmest aukning útgjalda er í félags-, húsnæðis- og tryggingamálum. „Gert er ráð fyrir að heildarframlög þvert á málefni útlendinga, umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks verði ríflega 15 ma.kr., en hækkunin nemur 7 ma.kr. á raunvirði á milli ára.

Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda aukast um 2,4 milljarða króna á milli ára. Þá verður 1,3 milljarða aukning í rekstrarframlögum til eflingar háskólastigsins.

Til stendur að fjölga nemendum í starfs- og tækninámi á framhaldsskólastigi. Stuðningingur til einkarekinna fjölmiðla mun hækka um helming á milli ára.

Aukin framlög vera til varnarmála til að standa að sameiginlegum tímabundnum verkefnum í Úkraínu. Stutt verður við innlenda framleiðslu á korni og kaup á björgunarskipum fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörgu verða styrkt.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert