Björt nótt víða og lá vel við næturfrosti

Næturfrost mældist víða á landinu í nótt og því er …
Næturfrost mældist víða á landinu í nótt og því er líklegt að einhverjir hafi tekið eftir frosti á bílum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Næturfrost mældist allvíða á landinu í nótt og þá sérstaklega inn til landsins, segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. 

„Þetta er dálítið þessi árstími, björt septembernótt og rólegt. Þá liggur vel við næturfrosti,“ segir Birgir, sem segir jafnframt að það liggi grunnt á kalda loftinu og því þurfi lítinn vind til þess að blanda loftinu og koma þannig í veg fyrir næturfrost. 

Frost á bílum 

Á Austurlandi mældist frost á öllum hitamælum sem ekki liggja við ströndina. Þá fór hiti undir sex stig í Aðaldal og Þingeyjarsýslu og eru áfram líkur á næturfrosti á Norður- og Austurlandi. 

Í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins fór hiti víða niður undir frostmark, jafnvel undir það í lægðum, segir Birgir en bætir við að hitamælar séu staðsettir í tveggja metra hæð og því mælist ekki endilega næturfrost þó það frjósi á bílum. Þó mældist frost á hitamælum í Víðidal og Korpu.

Birgir segir þó líkur á að það muni blása suðvestanlands í nótt og þar með snarminnka líkurnar á að næturhiti fari undir frostmark. 

„Þessi vindur mun væntanlega halda hitanum yfir frostmarki, þó það verði ekki hvasst,“ segir Birgir. 

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert