Dregið úr ívilnunum til rafbílakaupa

Bjarni segir að rafbílanotendur hafi með engu móti tekið þátt …
Bjarni segir að rafbílanotendur hafi með engu móti tekið þátt í því að greiða fyrir notkun á vegakerfinu. mbl.is/Árni Sæberg

Dregið verður úr ívilnunum fyrir rafmagnsbílaeigendur og kaupendur í frumvarpi til fjárlaga næsta árs. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir augljóst að finna þurfi nýtt jafnvægi í gjaldtöku af ökutækjum og umferð.

„Við höfum verið með mjög miklar ívilnanir fyrir rafbílanna til skamms tíma. Það hefur birst okkur til dæmis í því að við höfum ekki gert mikinn mun á því hversu dýrar bifreiðar fólk er að kaupa sér,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Hann nefnir að til skamms tíma hafi allar rafmagnsbifreiðar verið á 0% vörugjöldum en tekið hafi verið upp lágmarks vörugjald upp á 5% um síðustu áramót.

Sömuleiðis hafi rafmagnsbifreiðar verið með mun lægra bifreiðagjald en þær sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Ofan á þetta allt saman hafi verið miklar virðisaukaskattsívilnanir fyrir rafbílakaup.

„Svo bætist við þetta að rafbílarnir hafa með engu móti tekið þátt í því að greiða fyrir notkun á vegakerfinu.“

Skortir jafnvægi í gjaldtöku

Skoðun Bjarna er að frábær árangur hafi náðst í orkuskiptum á Íslandi. „Það hefur verið augljóst að við myndum þurfa að finna eitthvað nýtt jafnvægi í gjaldtöku af ökutækjum og umferð,“ bætir hann við.

„Við erum vissulega að fara að draga úr þessum ívilnunum en eftir sem áður verður bæði til staðar stuðningur til þess að kaupa sér sérstaklega hagkvæmari græna bíla, og það verður sömuleiðis ódýrara að eiga og reka rafmagnsbíl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert