„Fimmtán manns að rífa mig í sig“

Ingileif, til vinstri, var að ræða við mótmælendur í dag …
Ingileif, til vinstri, var að ræða við mótmælendur í dag þegar ljósmyndari mbl.is átti leið um. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingileif Friðriksdóttir, fjölmiðlakona og framkvæmdastjóri Ketchup Creative, segist hafa verulegar áhyggjur af þeirri upplýsingaóreiðu sem myndast hafi í tengslum við meinta aðkomu Samtakanna '78 að kynfræðslu í grunnskólum.

Hópur fólks lagði leið sína á Austurvöll í dag til þess að mótmæla starfi samtakanna undir yfirskriftinni „Klámið burt“ og segir Ingileif viðleitni sína til þess að eiga í málefnalegum samræðum við mótmælendur hafa skilað litlum árangri.

„Telja sig geta farið fram með offorsi“

Ingileif, sem vinnur að sjónvarpsþáttaseríu um hatursorðræðu fyrir Ríkisútvarpið, lagði leið sína á Austurvöll í dag til þess að athuga hvort hún gæti fundið þar viðmælendur fyrir sjónvarpsþáttinn.

„Ég fór í rauninni bara þangað til þess að athuga hvort ég gæti fengið einhverja viðmælendur þarna til þess að skilja hvers vegna þau telja sig geta farið fram með því offorsi sem þau hafa verið að gera síðustu daga,“ segir Ingileif. Hún segir að sín hafi ekki beðið hlýjar móttökur af hálfu mótmælenda. 

„Nema hvað að fólkið þarna var ekki tilbúið að veita viðtal, heldur einungis til þess að fara í mjög ómálefnalegar umræður sem voru ekki byggðar á staðreyndum,“ segir Ingileif.

„Planið var að fara og taka upp fyrir þessa þáttaseríu en ég stóð uppi með ekkert efni fyrir þáttaseríuna en 15 manns að rífa mig í sig fyrir að tala almennt fyrir hinseginfræðslu í grunnskóla.“

Segir forsendur mótmælanna rangar

Að sögn Ingileifar einkennist umræða síðustu daga af upplýsingaóreiðu og rangfærslum á internetinu þar sem fólk láti ýmiss konar fullyrðingar falla án þess að þær séu rökum reistar. 

„Þau virðast vera að halda því fram að það sé einhvern veginn verið að tala um kynlíf við lítil börn, að Samtökin '78 séu með innrætingu í grunnskólabörn og að það sé verið að reyna að fara fram á að börn skilgreini sig svona og hinsegin, sem er bara ekki rétt,“ segir Ingileif og vísar þar með til mótmælendahópsins sem samanstóð af fulltrúum Samtakanna 22 og þeirra sem tilheyra hópnum Klámið burt. 

„Ég hef bæði setið fullt af fræðslu hjá Samtökunum '78 og sjálf hef ég haldið haldið fullt af fræðslu á vegum Hinseginleikans þar sem við erum með mjög svipaða fræðslu. Þar erum við bara að tala um að fá að vera við sjálf, elska þá sem við elskum, að það séu til mismunandi fjölskylduform og allt þetta.“

Aðfarir gegn transfólki hafi áhrif á alla réttindabaráttu

Ingileif segir Samtökin 22 hafa leynt og ljóst reynt að grafa undan starfi Samtakanna '78 á undanförnu ári, meðal annars með því að níðast á trans fólki.

Hún kveðst eiga erfitt með að skilja hvernig aðfarir samtakanna gegn trans fólki eigi að skila árangri í réttindabaráttu samkynhneigðra, þar sem það að grafa undan einum hópi undan hinseginregnhlífinni muni á endanum grafa undan öllum. 

„Ertu ekki komin svolítið langt með hatrið þegar þú ert tilbúin að fórna þínum eigin réttindum til þess að traðka á öðrum hópum innan regnhlífarinnar?“ spyr Ingileif loks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert