Fjárlagafrumvarp ráðherra endurtekið efni

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ekkert nýtt vera að frétta …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir ekkert nýtt vera að frétta úr fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherra sem kynnt var í dag. mbl.is/Arnþór

„Staðan er óbreytt frá því í vor þegar ríkisstjórnin lagði fram þessa fjármáláætlun. Þá var líka ekki mikið fréttnæmt. Það var mikið verið að endurhanna og endurkynna eldri tillögur sem nýjar.“

Þetta segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, innt eftir því hver hennar fyrstu viðbrögð séu við fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem kynnt var í dag.

„Það virðist ekki vera mikið nýtt að frétta nema þá kannski einmitt það að þau virðast vera halda sínu striki óháð aðstæðum. Óháð því að við erum búin að fá viðbótar vaxtahækkanir í fangið og að verðbólgan virðist mjög þrálát,“ segir Kristrún.

Enn langt frá markmiðinu

Kristrún segist einnig hafa tekið eftir því að fjármálaráðherra hafi gefið það sterklega til kynna að það sé lítið sem ekkert svigrúm til að mæta vinnumarkaðnum með frekari aðgerðum í haust. 

„Uppleggið í þessum fjárlögum er auðvitað svolítið svoleiðis. Það er ekkert nýtt sem miðar sérstaklega að þeirri vinnu. Jú það er auðvitað talað um húsnæðisuppbyggingu. Þúsund íbúðir með stuðningi hins opinbera á næsta ári. Það er auðvitað gott og gilt.

Við erum ánægð með það en þetta er enn þá langt frá því markmiði sem upphaflega var um 1.200 slíkar íbúðir. Og þetta er markmið sem er búið að standa til í mörg ár en hefur aldrei tekist að standa við. En þessu fylgir fjárveiting núna sem er auðvitað jákvætt,“ segir Kristrún.

Skilar sér ekki inn í heimilisbókhaldið 

Hún segir framsetninguna á barnabótakerfinu einnig vera eitthvað sem Samfylkingin sé ekki ánægð með. „Þau segjast vera styðja við heimilin í landinu með sterkara barnabótakerfi. Þessi viðbót hefur verið stórlega ofmetin. Partur af því er að það hefur verið svo mikil verðbólga í kerfinu á þessu ári og verður á næsta ári að þessar tölur hverfa mjög hratt í þessu ástandi,“ segir Kristrún. 

Hún segir að ef litið er til þess hversu háa upphæð ríkisstjórnin ætlar að greiða út úr barnabótakerfinu á næsta ári, sem hlutfall af landsframleiðslu, þá hafi upphæðin ekki verið lægri á þessari öld. 

„Þannig þetta er ekkert nýtt úrræði. Ég er svolítið hrædd um að fólk verði fyrir miklum vonbrigðum þegar það áttar sig á því að þetta er einfaldlega ekki að fara skila sér inn í heimilisbókhaldið,“ segir Kristrún.

Brosleg tillaga ráðherra

Hún segir að auðvitað myndi Samfylkingin stýra efnahagsmálunum og velferðarmálunum til lengri tíma með allt öðrum hætti. Því verði þó ekki breytt núna og því einbeita þau sér að haustinu og hvað sé hægt að gera inn í haustið til að koma í veg fyrir að allt fari í hart í kjaraviðræðum. 

„Ég hef áhyggjur af því að það sé ekki komið með eðlilegar kjarabætur inn í þetta ástand til að stuðla að ró á vinnumarkaði. Í því samhengi er í raun broslegt að ráðherra skuli kynna tillögur til að hagræða í launum starfsmanna í efsta stjórnsýslustiginu og ætli sér þannig að spara launakostnað. En er mögulega að horfa upp á að launakostnaður almennt, í öllu kerfinu, hækki verulega ef það gengur illa að ná saman í kjarasamningum vegna þess að velferðarmálunum er ekki sinnt. Þá er ég að tala um húsnæðisstuðning og barnabætur og í raun allt sem ver kaupmátt fólks,“ segir Kristrún og bætir við að þetta sé vandi sem vindur upp á sig. 

„Hættan er auðvitað sú að fólk sé að reyna að spara á röngum stöðum og fær það svo í fangið síðar meir.“

Lýsi hálfgerðri uppgjöf

„Þessar aðgerðir hjá fjármálaráðherra og ríkisstjórninni í dag, þær lýsa að einhverju leiti hálfgerðri uppgjöf því það er bara reynt að kroppa í efsta stjórnsýslustigið, í stað þess að reyna ráðast að grunnrótum vandans. Vegna þess að fólk mun krefjast launahækkana ef það er ekki stutt við kjarabætur,“ segir Kristrún.

Hún segir að Samfylkingin muni leggja fram sínar tillögur að kjarabótum og segir ríkisstjórninni frjálst að nýta þær að vild. 

Áttu von á að það verði hlustað á ykkur núna?

„Það er aldrei að vita,“ segir Kristrún en bætir svo við: „En ég get alveg sagt í ákveðinni hreinskilni að miðað hversu oft við höfum kynnt sömu tillögurnar kæmi það mér á óvart ef þau myndu ekki bara halda sínu striki áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert