Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, er heimilt að kaupa og selja ýmsar fasteignir ríkisins samkvæmt framvarpi til fjárlaga 2024 sem kynnt voru í morgun.
Heimild ráðherra nær í mörgum tilfellum til fasteigna sem áður hefur verið veitt heimild til að kaupa eða selja, en einnig er að finna nokkrar nýjar eignir sem ráðherra er nú heimilt að kaupa og selja sem hér má sjá.
Þannig er ráðherra nú meðal annars heimilt að selja húsnæði á vegum Skógræktar og Landgræðslu og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði í tengslum við endurskipulagningu starfseminnar.
Þá er honum heimilt að taka við eignarhluta í Lágmúla 9 í Reykjavík vegna yfirfærslu verkefna frá Innheimtustofnun sveitarfélaga til sýslumanns og selja eða leigja eignina sé ekki talin þörf á henni undir starfsemi ríkisins.
Ráðherra er einnig heimilt að selja eignarhlut ríkisins í Skólabæ við Suðurgötu 26 í Reykjavík, þrátt fyrir þinglýstar kvaðir um að eignin skuli vera ævarandi eign Háskóla Íslands, og ráðstafa söluandvirðinu í þágu kennslu og rannsókna við Háskóla Íslands.
Að selja eignarhlut ríkisins í Bárugötu 3 í Reykjavík, þrátt fyrir þinglýstar kvaðir um að Vísindasjóði sé ekki heimilt að selja eða gefa eignina, og ráðstafa söluandvirðinu í þágu rannsókna og nýsköpunar á vegum Rannís.