Höfuðkúpan líkast til úr kirkjugarðinum

Höfuðbeinabrotin tvö lögð saman af sérfræðingi Þjóðminjasafnsins. Úr þeim má …
Höfuðbeinabrotin tvö lögð saman af sérfræðingi Þjóðminjasafnsins. Úr þeim má margt en ekki allt lesa. Ljósmynd/Þjóðminjasafnið

Iðnaðarmenn, sem sinna endurbótum á Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, fundu brot úr höfuðkúpu undir gólffjölum í risi hússins í fyrri viku.

Fátt er vitað um hvernig þau eru þangað komin en beinasérfræðingur Þjóðminjasafnsins telur líklegt að þau séu úr Hólavallakirkjugarði við Suðurgötu.

Þau kunni að hafa komið upp við jarðvegsvinnu þegar húsið var reist árið 1906 og einhver ákveðið að koma þeim fyrir í húsinu frekar en að láta jarðsetja þau á ný.

Beinin af fullorðinni manneskju

Að sögn dr. Joe W. Walser beinasérfræðings Þjóðminjasafnsins eru beinin úr fullorðinni manneskju, a.m.k. 25 ára gamalli, og að líkindum úr konu, þó erfitt sé að slá nokkru föstu um það. Unnið sé að kolefnisgreiningu á sýni úr beinunum og ættu niðurstöður hennar að liggja fyrir eftir nokkrar vikur.

Walser segir ekki ómögulegt að unnt sé að ná erfðaefni úr beinunum, þó vanalega sé stuðst við tennur til slíks, en dregur í efa að mikið verði á þeim upplýsingum að græða.

Hið dularfyllsta mál

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í viðtali við Morgunblaðið að málið sé hið dularfyllsta og þó að ýmsar hugrenningar hafi kviknað hjá sér bendi ekkert í þá átt.

„Það er enginn grunur um glæpsamlegt athæfi, svo þó að sakamálahöfundinum detti ýmislegt í hug þá eru engar vísbendingar um það,“ segir Katrín og nefnir að ekki séu nein ummerki um meiðsli, sjúkdóma eða slíkt á beinunum.

Eigi að síður var lögreglu gert viðvart um beinafundinn en höfuðkúpubrotunum síðan komið áleiðis til Þjóðminjasafnsins þar sem þeirra bíða frekari rannsóknir á næstu vikum.

Meira í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert