Kennarafélag Verkmenntaskólans á Akureyri mótmælir harðlega vinnubrögðum Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um fyrirhugaða sameiningu Verkmenntaskólans og Menntaskólans á Akureyri. Félagið leggst þannig gegn sameiningunni á þeim forsendum sem fram koma í skýrslu starfshóps - um eflingu framhaldsskóla i tengslum við fyrirhugaða sameiningu.
Í yfirlýsingu sem kennarafélagið sendi frá sér kemur fram að kennurunum þyki ljóst að farið hafi verið of geyst af stað enda niðurstaða starfshópsins ekki í anda menntastefnu stjórnvalda eða nýrra farsældarlaga, þar sem hagsmunir nemenda eiga að vera hafðir að leiðarljósi.
Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri hefur jafnframt lýst yfir eindreginni andstöðu við áformum ráðherra.
Upphaflega sáu kennarar skólans sóknarfæri í samstarfi milli framhaldsskólanna tveggja. Þegar þau höfðu rennt betur yfir skýrsluna sáu þau þó að markmið sameiningarinnar stangast á við það sem fram kemur í skýrslunni.
Eitt markmiðanna er meðal annars að auka stoðþjónustu við nemendur, fjölga námsbrautum, efla iðn- og verknám og auka námsval nemenda.
Kennarafélagið segir þó annað hafa komið á daginn þegar rýnt var í efni skýrslunnar.
„Af henni má berlega ráða að meginmarkmið með sameiningu skólanna er hagræðing og sparnaður sem m.a. kemur fram í fækkun námsráðgjafa, sálfræðinga og kennara og
stækkun nemendahópa,“ segir í yfirlýsingunni
Þá segir að þessi áform fari gegn menntastefnu stjórnvalda þar sem lögð er áhersla á vellíðan nemenda og jöfn tækifæri til náms, óháð móðurmáli eða námslegri stöðu.
Félagið vitnar í skýrslu fjármálaráðuneytisins (2008:5) annars vegar og skýrslu Ríkisendurskoðunar (2021:15) hins vegar um sameiningu ríkisstofnana, máli sínu til stuðnings, þar sem segir að sameining og viðamiklar breytingar skili ekki þeim árangri sem vænst er, eða í færri en 15% tilvika.
Í fyrrgreindum skýrslum eru taldar upp ástæður þess að sameiningar skili ekki tilgreindum árangri og fær kennarafélagið ekki annað séð en að þær ástæður einkenni vinnubrögð mennta- og barnamálaráðherra og stýrihóps hans þegar kemur að fyrirhugaðri sameiningu VMA og MA.