Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að börn fái fræðslu um fjölbreytileika samfélagsins þegar komi að kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu. Hún tekur fram að réttindi hinsegin og kynsegin fólks skerði ekki réttindi annarra.
Þetta kemur fram í færslu sem Katrín birti á Facebook-síðu sinni í kvöld.
Með færslunni vísar Katrín til umræðu um að of langt sé gengið í að fræða börn um málefni se snúi að kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu sem vakið hefur talsverða athygli undanfarna daga.
„Ég hef fengið fjölda skeyta um þessi mál þar sem kennarar og starfsfólk skóla er sakað um innrætingu á þessu sviði,“ segir Katrín í færslunni.
Katrín segir umræðuna hluta af hinu dapurlega bakslagi sem átt hafi sér stað gagnvart réttindum hinsegin og kynsegin fólks víða um heim að undanförnu.
„Það er ekki þannig að fræðsla um að fjölbreytileika sé innræting eða slíkri fræðslu sé ætlað að þvinga fólk í einhverja tiltekna átt,“ skrifar Katrín. Hún segir fræðslu af þessu tagi vera mikilvæga því hún gefi börnum tækifæri á að skilja það að fólk innan samfélagsins sé ólíkt og að þarf af leiðandi sé reynsluheimur þess ólíkur.
„Við erum ólík en við eigum öll okkar drauma, þrár og langanir,“ segir Katrín loks. „Og gott samfélag er samfélag þar sem við virðum hvert annað og vinnum saman að því að við öll fáum að blómstra á okkar eigin forsendum. Ég trúi því að það sé samfélagið sem við langflest viljum.“
Sjá má færslu forsætisráðherra í heild sinni hér að neðan.