Segir ráðherra ekki fara rétt með staðreyndir

Krista segir af og frá að Ásmundur Einar hafi hitt …
Krista segir af og frá að Ásmundur Einar hafi hitt Huginn skólafélag MA. Hún segir það hafa verið stjórn skólafélgsins sem gaf sig á tal við ráðherra eftir opinn fund með starfsfólki og nemendum. Samsett mynd

Krista Sól Guðjónsdóttir, forseti Hugins, skólafélags Menntaskólans á Akureyri, segir að henni, stjórn Hugins og miklum meirihluta nemenda þyki afskaplega leiðinlegt að ráðherra geti sett sig á háan hest og sett samtal fram við fjölmiðla á þann máta að það líti vel út fyrir hann sjálfan.

Greint var frá því á mbl.is í gær að Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, hafi hitt nem­enda­fé­lög MA og VMA fyr­ir helgi vegna hug­mynda um sam­ein­ingu skól­anna.

Sagðist hafa rætt samtal um að byggja brú

Ásmundur sagðist hafa skiln­ing á því að nem­end­ur hafi áhyggj­ur af þeirri menn­ingu, sögu, upp­bygg­ingu og fé­lags­lífi skól­anna sem kunni að tap­ast við sam­ein­ingu þeirra.

„Ég sagði það við for­ystu beggja nem­enda­fé­laga að við mynd­um hlutast til um sam­tal þarna á milli til þess að sjá hvort við gæt­um ekki byggt öfl­uga brú þar,“ sagði Ásmund­ur í samtali við mbl.is í gær.

Krista segir þetta af og frá. Hún segir það hafa verið stjórn skólafélagsins Hugins í MA sem gaf sig á tal við ráðherra eftir opinn fund með starfsfólki og nemendum.

„Hann gaf sig ekki á tal við okkur. Hann snéri út úr öllum okkar spurningum nema þeirri sem sneri að því hvort af sameiningu yrði. Hann var afdráttarlaus þar og sagði að sameiningin yrði keyrð í gegn.“

Hægt að hætta við ef bakslag verður eftir sameiningu

Segir forseti Hugins Ásmund hafa talað þannig að aðeins yrði snúið frá áformum um sameiningu eftir að á sameininguna hafi reynt.

„Ef bakslag kæmi þá eftir sameininguna, að þá væri mögulega hægt að snúa til baka og hætta við sameiningu. Við túlkuðum hans orð þannig. Hann talaði ekki við okkur um að hlutast til um sam­tal þarna á milli til þess að sjá hvort við gæt­um ekki byggt einhverja brú.

Hann ræddi þetta eitthvað á um 500 manna fundi en það er ekki það sama og hann hélt fram í viðtalinu við mbl.is um að hann hafi rætt málin eitthvað sérstaklega við okkur. Við heyrðum hann hvergi segja neitt nálægt þessu.“

Segir Krista að Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og flokkssystir ráðherra, hafi vissulega spurt hvort nemendur væru með einhverjar hugmyndir um það hvernig hægt væri að varðveita hefðirnar þeirra í sameiginlegum skóla.

„Það voru tveir opnir fundir, annar fyrir starfsfólk og nemendur en hinn var opinn öllum sem vildu mæta. Við í skólafélaginu Huginn sátum þann fund einnig. Að fundi loknum gaf Ingibjörg sig á tal við okkur og ráðherra kom að því samtali með þeim orðum að við þyrftum að vera með opinn hug og tilbúin að skoða þessi áform.“

„Þið gerið það þá bara“

Ráðherra lét hafa eftir sér í samtalinu við mbl.is í gær að hann hafi hvatt nemendur til að láta í sér heyra og sagði sér finnast já­kvætt þegar ungt fólk læt­ur sig mál­in varða.

Krista segist hafa varað Ásmund við fyrirhuguðum mótmælum sem nemendur blésu síðan til í síðustu viku.

„Í rauninni varaði ég hann við þeim mótmælum og þá sagði hann: „Þið gerið það þá bara”. Ég veit ekki hvort það sé að hvetja okkur til þess að láta í okkur heyra.“

Hún segir þó að kannski megi segja að ráðherra hafi hitt skólafélagið fyrir helgi.

„Hann hitti að minnsta kosti á Huginn, skólafélagið í MA, á þriðjudag eftir opna fundinn. Það má svo sem segja að það sé fyrir helgi en fyrir mér er það nú frekar langt frá helginni, segir Krista og bætir því við til áherslu í þessa umræðu að það taki mörg ár að byggja hefðir og byggja upp andann í skólunum tveimur en ekki langan tíma að glata því öllu saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert