Skemmtiferðaskipið Ocean Explorer hefur strandað í Alpafirði á Grænlandi, en svæðið er innan þjóðgarðssvæðis landsins. Íslenska landhelgisgæslan er í biðstöðu ef aðstoðar verður óskað.
Grænlensku lögreglunni bárust fregnir af skipinu rétt eftir 15 í gær, en 206 manns eru um borð. Samkvæmt grænlenskum yfirvöldum eru allir um borð óslasaðirog við góða heilsu.
Samkvæmt grænlenska miðlinum Sermitsiaq var ákveðið í morgun að reynt yrði að losa skipið með eigin afli þess þegar straumur hækkaði. Lögreglan á svæðinu ásamt Norðurskautsdeild danska hersins fylgjast grannt með þróun mála.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir í samtali við mbl.is að Gæslunni hafi verið gert viðvart um skipið í nótt. Hann segir varðskipið Þór einmitt á norðurleið og að Landhelgisgæslan sé því í viðbragðsstöðu.
„Ef að formleg beiðni kæmi um að Þór færi á staðinn, þá er Þór um 40 klukkutíma að sigla. En við erum bara í biðstöðu.“
Ásgeir segir að af öllum líkindum komi í ljós seinna í dag hvort óskað verði eftir að Þór haldi á staðinn.
Á Facebook-reikningi Norðurskautsherdeildarinnar segir að málið sé verulegt áhyggjuefni, en að í þessu tilfelli steðji sem betur fer ekki bein ógn að fólki né að náttúrunni. Segir herdeildin einnig möguleika á því að óskað verði eftir aðstoð íslensku landhelgisgæslunnar samkvæmt samningum um Norrænt samstarf á norðurslóðum.
Nálægasta skipið að sögn herdeildarinnar hefur rannsóknarskipið Knud Rasmussen verið sent í áttina að Ocean Explorer en skipið er um 1.200 sjómílur frá og getur því í fyrsta lagi náð til skipsins á föstudagsmorgun ef veður leyfir.
Einnig hefur öðru skemmtiferðaskipi á svæðinu verið gert viðvart um aðstæður og beðið um að halda kyrru til þar til frekari upplýsingar liggi fyrir.