Guðmundur Hilmarsson
Búið er að útskrifa alla nema einn af sjúkrahúsi eftir rútuslysið skammt frá Blönduósi á föstudaginn en rúta með 24 farþega innanborðs valt á veginum.
Allir farþegarnir ásamt ökumanni voru fluttir á sjúkrahús, sjö á Landspítalann í Reykjavík og aðrir á sjúkrahúsið á Akureyri. Farþegarnir voru allir starfsmenn á búsetukjörnum Akureyrarbæjar en þeir voru á leið heim eftir námskeið og ráðstefnu í Portúgal.
„Það er einn ennþá á Landspítalanum í Reykjavík og verður þar einhverja daga til viðbótar en aðrir eru komnir heim,“ segir Karólína Gunnarsdóttir, þjónustustjóri á velferðarsviði Akureyrar, í samtali við mbl.is.
Karólína segir mismunandi hvernig líðan fólksins sé en ekki er verið að reka á eftir fólki að mæta aftur til starfa. Hún segir að einhverjir hafi skilað sér aftur til vinnu en fleiri hafi mætt til sýna sig og sjá aðra. Karólína gerir ráð fyrir að þegar líða tekur á vikuna og öðru hvoru megin við helgina þá mæti fleiri til starfa.
„Að lenda í svona slysi tekur auðvitað á fólk. Það er margir með mar, eru skornir og einhverjir með beinbrot. Það tekur tíma fyrir fólk að ná sér enda hörmuleg upplifun fyrir það að lenda í þessu,“ segir Karólína.
Að sögn Karólínu hefur verið hlúð vel að fólkinu og því boðin öll sú hjálp sem kostur er á.
„Við vorum með áfallahjálp á staðnum strax á föstudaginn og síðan erum við að fara að hitta allan hópinn á morgun. Það er búið að bjóða öllum einstaklingsviðtöl líka. Fólk er auðvitað misjafnt. Sumir þurfa á hjálp að halda en aðrir ekki,“ segir Karólína.