„Ástríða mín og pólitísk sýn stendur þó ekki til þess að sameina skóla sameininganna vegna. Nú eða hagræða hagræðinganna vegna. Heldur er verkefnið að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri á gæðamenntun og þjónustu.“
Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í ræðu sinni á Alþingi í dag. Þar ítrekaði hann mikilvægi þess að ráðist verði í breytingar í menntakerfinu. Sagði hann breytingarnar tengjast lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021 um farsæld barna.
Sagði ráðherra ástæðurnar fyrir breytingunum vera þær að of mörg börn og ungmenni næðu ekki fullnægjandi námsárangri, ættu ekki vini eða liði ekki nógu vel.
„Of mörg ungmenni detta úr námi, taka ekki virkan þátt í samfélaginu og þeim börnum sem sýna alvarlega áhættuhegðun fer fjölgandi. Það er nefnilega staðreynd að á Íslandi eiga ekki öll börn jafna möguleika á farsæld.“
Mikil umræða hefur skapast í kringum fyrirhugaða sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri. Kennarafélög beggja skóla hafa gagnrýnt vinnubrögð ráðherra og margir MA-ingar, núverandi sem fyrrverandi, hafa sagst mótfallnir sameiningunni.
„Í þessu verkefni erum við að sjálfsögðu háð þeim ramma, þeim fjárheimildum og verkfærum sem úthlutað hefur verið til þess. Og það er ekkert leyndarmál að staða í ríkisfjármálum hefur sett okkur ákveðnar takmarkanir,“ sagði Ásmundur og bætti við að ef aukið fjármagn fengist ekki og ef ekki yrði farið í róttækar breytingar á landsvísu sem skiluðu betri nýtingu fjármagns hefði það fljótt mikil áhrif.
„Við stöndum þannig frammi fyrir því að einhverjir skólar muni í náinni framtíð mögulega ekki geta sinnt lögbundinni þjónustu eða menntun vegna fjár- eða húsnæðisskorts, til að mynda til þess að mæta aukningu í starfs- og verknám.“
„Þetta er krefjandi staða því breytingar, ekki síst á rótgrónum menntastofnunum, þurfa aðdraganda og umræðu – og oftar en ekki eru þetta menntastofnanir sem er fullkomlega eðlilegt að margir beri mjög sterkar tilfinningar til,“ sagði ráðherra menntamála og benti á að það væri hvorki ástríða sín né pólitísk sýn að sameina skóla sameininganna vegna.
„Fáist ekki nýtt fjármagn og ef við þurfum að velja milli farsældar og jafnaðar meðal barna eða að viðhalda rótgrónum stofnunum, þá þurfum við forgangsraða börnunum. Þar höfum við ekki val.“
Nefndi hann að hann myndi ekki síst óska eftir samstarfi Alþingis er þetta verkefni varðar á þingvetrinum.
„Við viljum og munum hlusta og ég óska af einlægni eftir ráðgjöf og liðsinni í þessu risastóra en mikilvæga verkefni.“