Bilun kom upp í kerfisrekstri Reykjavíkurborgar, sem úthlutar IP-tölum. Bilunin veldur því að tölvur borgarinnar ná ekki allar netsambandi og hefur þar af leiðandi áhrif á þjónustusíma og -spjall borgarinnar, sem liggur nú niðri.
„Það er einhver búnaður sem virkar, borð- og fartölvur sem hafa hangið á netinu í nótt eru enn með nettengingu,“ segir Ólafur Sólimann Helgason, deildarstjóri vefdeildar hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar, og því virðist sem flest starfsemi borgarinnar geti gengið áfram.
Ólafur segir ástandið hvimleitt, enda búið að vera að reyna að vinna á biluninni í fjóra klukkutíma.
Á þessum tímapunkti segir hann engar áhyggjur uppi um að gerð hafi verið árás á tölvukerfið. Hann segir það þó verða að koma betur í ljós þegar búið er að greina bilunina.
„Líklegast er þetta bara gamaldags bilun. Það eru allavega engar viðvörunarbjöllur sem segja okkur að hafa áhyggjur.“
Ekki er hægt að segja til um hvenær kerfið verður komið í lag, en Ólafur bindur vonir við að þeim takist að koma því í lag sem fyrst.