Bjarni: „Það má ávallt treysta á stjórnarandstöðuna“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í kvöld.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, gagn­rýndi stjórn­ar­and­stöðuna í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. Benti hann á ósam­ræmi í skoðunum þing­manna stjórn­ar­and­stöðuflokk­anna en full­yrðing­ar Bjarna féllu illa í kramið hjá for­manni Flokks fólks­ins, sem hrópaði að ráðherra.

„Ísland er á fullri ferð. Ekk­ert Evr­ópu­ríki, sem töl­ur ná til, hafði til að mynda meiri hag­vöxt á fyrri helm­ingi árs­ins – ekk­ert,“ sagði Bjarni í upp­hafi ræðu sinn­ar. Nefn­ir hann einnig hverf­andi at­vinnu­leysi, mikl­um gangi í helstu at­vinnu­grein­um og ekki síst sölu á ís­lenska fyr­ir­tæk­inu Kerec­is, upp á 200 millj­arða króna.

„Þótt við eig­um það til að ein­blína á allt það sem aflaga fer meg­um við ekki gleyma þeim fram­förum sem hér hafa orðið,“ sagði ráðherra. „Helsta verk­efni okk­ar þenn­an þing­vet­ur­inn og til næstu ára sé að styðja við end­ur­heimt stöðug­leika, sem muni verka eins og stökkpall­ur til enn frek­ari sókn­ar,“ sagði hann enn frem­ur.

Inga sæ­land: „Það er rangt“

Ráðherra kynnti fjár­laga­frum­varp fyr­ir árið 2024 í gær. Í ræðu sinni bend­ir Bjarni á gagn­rýni annarra þing­manna í kjöl­far kynn­ing­ar frum­varps­ins – gagn­rýni sem hann kall­ar „fasta liði“.

Hann hafði það eft­ir Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni, for­manni Miðflokks­ins, að stjórn­völd eyddu of miklu.  Benti hann jafn­framt á að Ingu Sæ­land, for­manni flokks fólks­ins, finn­ist of litlu eytt.

Inga hafði þó nokkuð um full­yrðingu Bjarna að segja og því hrópaði hún úr þingsal: „Það er rangt“.

Bjarni hélt áfram:

„Hátt­virt­ur þingmaður Kristrún Frosta­dótt­ir vill hærri skatta, stærra ríki, til þess að auka til­færsl­ur og milli­færsl­ur. Og kenn­ing­in er auðvitað sú að það erum við stjórn­mála­menn sem vit­um best hvar pen­ing­arn­ir eiga heima. Svo eru það auðvitað aðrir þing­menn eins og hátt­virt­ur þingmaður Björn Leví Gunn­ars­son sem mér sýn­ist boða það að hann skilji mest lítið í þessu öllu sam­an.“ 

Stjórn­ar­andstaðan ekki sá stöðug­leiki sem leit­ast er eft­ir

„Þetta er fólkið sem tel­ur að það sé rík­is­stjórn­in sem sé ósam­stíga. Hugsa sér,“ bæt­ir Bjarni við og seg­ir að þótt sam­fé­lagið sé á fleygi­ferð og efna­hag­ur vax­andi séu önn­ur tregðulög­mál að verk­um á þing­inu.

„Það má ávallt treysta á stjórn­ar­and­stöðuna. Þau eru stöðugt með allt á horn­um sér. En það er ekki sá stöðug­leiki sem við erum að leita eft­ir.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert