„Eins og að anda að sér steypu“

Slökkvilið að störfum í Urðarhvarfi á mánudaginn.
Slökkvilið að störfum í Urðarhvarfi á mánudaginn. mbl.is/Árni Sæberg

Altjón varð á veitingastaðnum Pure deli í Kópavogi þegar eldur kviknaði á mánudaginn á lager útifataverslunarinnar Zo-On, sem er í sama húsnæði. 

Um 20 manns, starfsfólk og viðskiptavinir, voru inni á veitingastaðnum þegar eldvarnarveggurinn gaf sig og veitingastaðurinn fylltist af þykkum reykjarmekki á örskotsstundu. Þeir sem inni voru urðu að taka til fótana og komust allir út heilu og höldnu.

Ingibjörg Þorvaldsdóttir, eigandi Pure deli, kveðst þakklát fyrir að engin slys hafi orðið á fólki en að vissulega sé það mikið áfall að missa veitingastaðinn, sem hefur verið rekinn með góðu móti í sex ár að hennar sögn.

„Það kviknar í lagerrýminu hjá Zo-On, þar er allt fullt af flíspeysum og útivistarfatnaði, sem er einn mesti eldsmatur sem þú finnur. Það kemur mikill eldur og ofboðslega þungur og mikill reykur þegar svona hlutir brenna. En við verðum ekki vör við neitt fyrr en þetta þrýstir veggnum okkar inn og brýst yfir til okkar. Það gerist allt mjög hratt.“

Vona að hægt sé að opna aftur

Hún var sjálf stödd heima við þegar eldurinn kviknaði og segir hún símtalið hafa verið mikið áfall. Hún á heima í nágrenninu og var mætt á vettvang á undan slökkviliðinu. 

„Fyrsta sem maður hugsar er að einhver hafi meiðst,“ segir Ingibjörg.

„Síðasti maður út var starfsmaður frá mér, hann hljóp inn því hann var svo hræddur um að einhver væri inni enn þá. Þeir sem voru síðastir út önduðu [reyknum] smá að sér. Þegar þau voru að lýsa þessu fyrir mér sögðu þau að þetta væri eins og að anda að sér steypu, hræðilegt. Ég er svo þakklát að ekki hafi verr farið, að það komust allir út og það sé í lagi með alla.“

Hún segir erfitt að áætla hvað tjónið nemi miklu.

„Svona eldur og sót eyðileggur allt þannig að það þarf að hefjast algjör endurnýjun til þess að það sé hægt að hefja rekstur að nýju. Það þarf að taka allt út og setja nýtt inn til að laga þetta. Það er allt ónýtt sem þarna er.“

Enn sé óljóst hvernig og hvenær hægt verði að hefja framkvæmdir á húsnæðinu og í framhaldinu opna veitingastaðinn á nýjan leik.

„Við höfum ekki fengið upplýsingar til þess að meta það. Svo er allt ónýtt við hliðina á líka. Við eigum eftir að fá að vita ansi mikið áður en að við getum gert plön, en auðvitað vonum við að við getum opnað að nýju og að það gangi upp og gerist ekki á of löngum tíma,“ segir Ingibjörg og bætir við:

„Þetta er bara allt á byrjunarstigi. Við höfum ekki fengið að fara inn. Þetta gerðist bara í fyrradag. Við erum alveg í fyrstu skrefunum og að jafna okkur líka á þessu, halda utan um starfsfólkið okkar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert