Hætta flugi til Húsavíkur að öllu óbreyttu

Flugfélagið Ernir ætlar að leggja niður áætlunarflug til Húsavíkur um …
Flugfélagið Ernir ætlar að leggja niður áætlunarflug til Húsavíkur um næstu mánaðarmót að öllu óbreyttu. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Flugfélagið Ernir hefur ákveðið að hætta áætlunarflugi til Húsavíkur um næstu mánaðamót. Þetta staðfestir Einar Hermannsson sölu- og markaðsstjóri hjá flugfélaginu Erni. Hann segir koma til greina að halda fluginu áfram verði það styrkt af hinu opinbera. 

„Frá okkar bæjardyrum séð, þá eru við búin að taka ákvörðun um að hætta. Bæjarstjórnin er að tala við Alþingi um að fá styrk,“ segir Einar í samtali við mbl.is. 

Skoða sölu á Dornier-vélinni

Félagið hefur einnig kannað að setja Dornier-328-vél sína á sölu og leita nú eftir verðmati. Vélin verður seld ef ásættanlegt tilboð berst í hana. 

„Fyrsta skrefið er verðmat, ef það er viðunandi þá er tekin ákvörðun um hvort hún fari í söluferli,“ segir Einar. 

Spurður hvort þetta möguleg sala á vélinni tengist því að fyrirhugað sé að hætta áætlunarflugi til Húsavíkur segir Einar ekki endilega. Dornier-vélin henti ekki endilega best til flugs til Húsavíkur, önnur vél sé heldur notuð í það. 

Ernir leitar nú að verðmati á Dornier-vél sinni.
Ernir leitar nú að verðmati á Dornier-vél sinni. mbl.is/Sigurður Bogi

Stærsta hagsmunamál samfélagsins

Forsvarsmenn Ernis funduðu með fulltrúum Norðurþings og stéttarfélagsins Framsýnar í upphafi vikunnar. 

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, segist hafa verið vakinn og sofinn yfir Húsavíkurfluginu undanfarnar vikur og segir flugið vera eitt stærsta hagsmunamál samfélagsins.

Allar forsendur séu til staðar til að halda uppi öflugu flugi milli Reykjavíkur og Húsavíkur. 

„Það þarf að viðhalda þessu flugi fyrir samfélagið. Þetta snýst ekki bara um Húsavík heldur samfélagið í heild sinni, frá Víkurskarði til Þórshafnar. Hópur fólks þarf að ferðast suður í hverri einustu viku til lækninga. Svo eru aðrir sem þurfa að ferðast vegna vinnunnar og ferðamennskan er einnig í miklum blóma,“ segir Aðalsteinn í samtali við mbl.is. 

„Þetta stendur einfaldlega þannig að eina flugleiðin á Íslandi sem er ekki ríkisstyrkt er Reykjavík-Húsavík. Aðrar leiðir hafa verið boðnar út á vegum ríkisins eða Vegagerðarinnar. Það eru Höfn, Bíldudalur, Gjögur, Grímsey, Vopnafjörður, Þórshöfn og að hluta til Vestmannaeyjar. Svo má ekki gleyma því að þegar Icelandair gekk illa í kringum faraldurinn fengu þeir gríðarlega meðgjöf með ríkisábyrgð,“ segir Aðalsteinn en tekur þó fram að þeirri ábyrgð hafi verið létt af núna. 

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert