Inga: „Ég vildi óska þess að ég væri einráð“

Inga Sæland fór ekki leynt með skoðanir sínar í ræðu …
Inga Sæland fór ekki leynt með skoðanir sínar í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sakaði forsætisráðherra um algjört aðgerðaleysi í málefnum fátækra í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Hún sagði að sennilega væri betra að búa á Íslandi ef hún væri sú sem stýrði skútunni. 

„Ég hélt að ég væri sjónlausi þingmaðurinn“

Inga gagnrýndi stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra harðlega, en í henni sagði forsætisráðherra að fátækt á Íslandi færi minnkandi. Inga sagðist alfarið ósammála þeirri fullyrðingu. 

Nú segir hæstvirtur forsætisráðherra að það séu góðar blikur á lofti og ánægjulegt að vita til þess að fátækt hefur einmitt verið að minnka á Íslandi. Síðast í dag var Hjálparstofnun kirkjunnar að koma með skýrslu sem bendir til þess alla leið að það eina sem þau hafa séð er vaxandi fátækt.

Það eru vaxandi neyðaróp um hjálp, en hér sitja þessir háu herrar og frúr, hér situr ríkisstjórn auðvaldsins, blind á báðum augum. Og ég hélt að ég væri sjónlausi þingmaðurinn,“ sagði Inga. 

Sagði öryrkja fasta í fátækt

Þá gagnrýndi Inga ríkisstjórnina harðlega og sagði ekki árangur heldur afturfarir hafa átt sér stað á undanförnum árum.   

„Þegar sami ágæti forsætisráðherra er búin að vera með stýri skútunnar í fanginu, þá hefur fátækt ekki bara vaxið gegnumgangandi heldur hafa komið fram skýrslur sem sýna að fátækt íslenskra barna hefur vaxið um heil 44% á síðustu sex árum,“ sagði Inga.

„Það myndi sennilega vera skárra að búa hér á landi ef að ég væri að stýra þessari skútu.“

Ekkert gerst á sex árum

Inga sagði öryrkja á Íslandi fasta í fátækt ár eftir ár og að öll úrræði sem Flokkur fólksins hafi sett fram hafi verið þurrkuð út af borðinu. 

„Í þau sex ár sem ég hef verið á þingi, og núna í sjöunda skipti sem ég er hér að flytja ræðu, þá verð ég að segja það að ég virkilega trúði því að góðir hlutir gerðust hægt. En hér gerast litlir sem engir hlutir og þeir gerast meira en hægt. Þeir gerast bara alls ekki neitt,“ sagði Inga sem endaði ræðu sína með afgerandi hætti. 

„Kæra þjóð, ég vildi óska þess að ég væri einráð í dag, þá væru hlutirnir betri. Svo er alveg víst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert