Katrín: Fleira sem sameinar en sundrar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði áherslu á það í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld að það væri fleira sem sameinaði bæði ríkisstjórnina, og þjóðina, heldur en sundraði henni. Mikilvægt væri að geta komist að sameiginlegri niðurstöðu í þágu heildarinnar. 

Hún sagði verkefni ríkisstjórnarinnar og alls Alþings vera ljós og skýr, ná niður verðbólgu og vöxtum og byggja ofan á þann árangur sem náðst hefur í efnahags- og velferðarmálum þrátt fyrir áhlaup síðustu ára.

Ábatinn yrði sjáanlegur í vetur svo fremi sem þeim tækist að vinna saman að stóru markmiðunum. 

„Þau eru mörg, mikilvægu málin sem við þurfum að takast á við. Og ég hef enn trú því á að besta pólitíkin sé að vinna að sátt um lausnirnar frekar en pólitík sem snýst um að herða pólana og færa þá lengra í sundur. Og ég er viss um að við sem byggjum þetta land erum langflest sammála um það,“ sagði Katrín.

Greiða fyrir samningum eins og hægt er

Katrín fór um víðan völl í ræðu sinni og talaði meðal annars um að miklu máli skipti að aðilar vinnumarkaðarins fái ráðrúm til að ná saman um farsæla kjarasamninga. Stjórnvöld hygðust greiða fyrir samningum eins og hægt er í vetur. Lagði hún einnig áherslu á að áætlanir stjórnvalda í húsnæðismálum gengi eftir. 

Forsætisráðherra sagði einnig að baráttan við fátækt væri enn háð þó miklum árangri hafi verið náð. Árangurinn sé lykilatriði þegar horft sé til almennrar velsældar. 

Átökum í heiminum fjölgað

Í ræðu sinni ræddi Katrín einnig um þær átakalínur sem dregist hafa upp í heiminum öllum.

„Á sama tíma og loftslagsváin hefur skapað neyðarástand víða hefur átökum í heiminum fjölgað. Oftar en ekki snúast þau átök um grundvallarréttindi fólks. Á vettvangi alþjóðastofnana er tekist á um mannréttindi sem við héldum að við hefðum þegar barist fyrir – eins og sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama eða réttindi hinsegin fólks.

Allt sýnir þetta að mannréttindi eru ekki sjálfgefin, eins og sést nú best á því dapurlega bakslagi sem við sjáum í umræðu um hinsegin og kynsegin fólk.

Tekist er á um gildi þeirrar samfélagsgerðar sem við höfum byggt upp – lýðræði, frelsi, mannréttindi og réttarríkið. Víða er vegið að sjálfstæði dómstóla og grafið undan löggjafarvaldinu,“ sagði Katrín og bætti við að Ísland myndi bjóða sig fram til Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á nýjan leik. 

„Áfram munum við berjast fyrir jafnrétti kynjanna heima og að heiman og mun ég strax í haust leggja fyrir þingið frumvarp um Mannréttindastofnun sem er forsenda þess að unnt verði að lögfesta Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert