Kristrún: „Það eru verkin sem tala“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, var ómyrk í máli í ræðustól á Alþingi í kvöld þegar hún gagnrýndi meðal annars fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem kynnt var í gær. 

Kristrún sagði að Samfylkingin myndi taka örugg skref í stjórnarháttum sínum ef hún fengi til þess traust í næstu kosningum.

„Samfylkingin fer ekki í heljarstökk. Við rjúkum ekki upp út af minnstu málum. Og við látum ekki slá okkur út af laginu,“ sagði Kristrún.

Velti hún upp þeirri spurningu hvort ríkisstjórnin hefði notað fyrri hluta kjörtímabilsins til góðs og svaraði sjálfri sér: „Það fer mikil orka í að rífast innbyrðis og reyna að láta stjórnmálin snúast um eitthvað allt annað en það sem raunverulega brennur á fólkinu í landinu. Samfylkingin tekur ekki þátt í þessu.“

Vilja mæta til leiks með raunsæjar lausnir

Sagði hún frá því að Samfylkingin vinni nú upp úr hátt í 40 fundum með almenningi um allt land.

„Við viljum mæta til leiks með raunsæjar lausnir sem endurspegla þau skref sem meirihluti þjóðar vill að verði tekin í grundvallarmálaflokkum. Fólkið í landinu skilur vel að það er ekki hægt að gera allt. Það vill bara stjórnmálafólk sem er hreinskilið um þá vegferð sem það treystir sér í. Eða eins og ágætur maður sem ég rakst á á kaffihúsi um daginn sagði: „Maður gerir ekki miklar kröfur til stjórnmálamanna. Bara að þau geri það sem þau segjast ætla að gera.“,“ sagði Kristrún. 

Hún sagði frá því að fyrir lok mánaðar muni Samfylkingin kynna verklýsingu fyrir nýja ríkisstjórn, fimm þjóðarmarkmið í heilbrigðis- og öldrunarmálum. 

„Við höfum hlustað, meðtekið og sett á blað hvernig við viljum tryggja að grunnurinn sé í lagi; að fólk finni fyrir öryggi — hvar sem það býr — og hafi fastan tengipunkt við heilbrigðiskerfið; hvernig við drögum úr skriffinnsku og tryggjum að heilbrigðisstarfsfólk hafi meiri tíma til að sinna sjúklingnum, svo dæmi séu nefnd.“

Upptekin við að rífast við sjálfa sig

Kristrún sagði að þetta væri það sem þau gerðu á meðan ríkisstjórnin væri upptekin við að rífast við sjálfa sig um sín eigin sjálfsköpuðu vandamál. 

„En það eina sem ríkisstjórnin virðist vera algjörlega sammála um innbyrðis er að halda áfram að reka skaðlega efnahags- og velferðarstefnu, sem grefur undan stöðugleika og bítur í skottið á sér,“ sagði Kristrún. 

Það hafi sýnt sig í kynningu fjármálaráðherra í gær þegar hann kynnti óbreytta stefnu ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert