Lokað í Vesturbæ en nýtt útibú í Reykjastræti

Nýtt útibú í miðbæ Reykjavíkur opnaði í dag. Það tekur …
Nýtt útibú í miðbæ Reykjavíkur opnaði í dag. Það tekur við af bæði gamla aðalútibúinu og Vesturbæjarútibúinu. Útibúið í Vesturbænum hefur þegar lokað, en gamla aðalútibúið verður opið með takmarkaðri þjónustu í rúmlega viku til viðbótar. Ljósmynd/Aðsend

Landsbankinn opnaði í dag útibú sitt í nýjum höfuðstöðvum bankans í Reykjastræti í miðbæ Reykjavíkur. Tekur útibúið við af útibúi bankans sem var í Austurstræti í gömlu höfuðstöðvum bankans. Samhliða þessu lokar Vesturbæjarútibú bankans í húsnæði Háskólabíós, en þar verða eftir sem áður hraðbankar.

Í tilkynningu á vef bankans kemur fram að takmörkuð þjónusta verði áfram í boði í Austurstræti fram í næstu viku, eða til 22. september, þegar gamla aðalútibúið lokar að fullu. Þar er nú myndlistarsýningin Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans sem er aðgengileg almenningi á milli 10 og 16 á virkum dögum.

Nýja útibú bankans í Reykjarstræti 6 verður opið á milli 10 og 16 og verður þar hægt að fá þjónustu gjaldkera, auk þess sem hraðbankar og önnur sjálfsafgreiðslutæki eru aðgengileg allan sólarhringinn.

Tekið er fram í tilkynningu að aðgengi að útibúinu muni batna þegar framkvæmdum á lóð og í bílakjallara muni ljúka síðar í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert