Heilbrigðismál, fjárlög, hælisleitendamál og „gæluverkefni Samfylkingarinnar í Reykjavík“ voru meðal þess sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ræddi uppi í pontu á Alþingi í kvöld.
Sigmundur hóf ræðu sína á því að segja að „ekki neitt“ hefði komið úr þinghléinu, „en eftir stendur að flokkarnir eru til í að fórna öllu fyrir stjórnarsetu en engu fyrir stefnu sína og kosningaloforð“.
Þá sagði hann „gömlu vandræðamálin“ skjóta aftur upp höfði, sum samfélagslega vafasöm, sum efnahagslegt óráð og sum sem „ganga gegn fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti landsins“.
„Þegar ríkisstjórnin tók við var Ísland land tækifæranna, sumum hefur verið glutrað niður, önnur ekki nýtt. Það skiptir nefnilega máli hverjir stjórna og það er ekki bara best að kjósa þá sem vilja bara vera í stjórn til að vera í stjórn.“
Sigmundur gagnrýndi einnig nýtt fjárlagafrumvarp, sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í gær.
„Fjárlög eru kynnt á þann hátt að ríkisstjórnin hafi dottið í lukkupottinn því ferðamenn og landsmenn kaupa í kappi við verðbólguna – hafi skilað svo miklum skatttekjum. En stjórnin ætli ekki að eyða öllum auka peningunum, bara hluta af þeim. Og það kallar hún aðhald. Um leið er kynnt nýtt Íslandsmet í ríkisútgjöldum og áframhaldandi hallarekstur,“ sagði Sigmundur.
Hann bætti við að skuldir ríkissjóðs væru orðnar svo miklar að borga þurfi 90 milljarða bara í vexti, sem hann segir um milljón krónur á hvert heimili.
„Það er álíka mikið og fer í öll samgöngumál, húsnæðisstuðning og löggæslu til samans,“ sagði hann.
„En næsta ríkisstjórn á víst að greiða niður skuldirnar. Nema ef hún er svipuð þessari, þá er það væntanlega þarnæsta ríkisstjórn.“
Sigmundur velti þá fyrir sér því sem hefði orðið undir öðru stjórnarfari:
„Við gætum hafa notað einstakt tækifæri til að endurskipuleggja fjármálakerfið og koma á kerfi sem virkar betur fyrir almenning og fyrirtæki, auk þess til dæmis að skila eignarhlut í ríkisbanka beint og jafnt til eigendanna sjálfra, almennings í landinu.“
Sagði hann að þá hefði einnig mátt innleiða „húsnæðisstefnu sem virkar“ og „heilbrigðiskerfi sem virkar“. Auk þess hefði mátt haga ríkisfjármálum þannig að verðbólga og vextir væru ekki fóðruð af gríðarlegum ríkisútgjöldum og síhækkandi gjaldtöku og öðrum álögum ríkisins.
Nefndi Sigmundur samgöngumálin og sagði að betur hefði mátt ráðast í hagkvæmar og mikilvægar framkvæmdir sem hefðu beðið von úr viti, „í stað þess að leyfa borgarstjórn Reykjavíkur að ráða för og rukka alla landsmenn fyrir gæluverkefni Samfylkingarinnar í Reykjavík“.
„Loks gætum við lært af reynslu annarra Norðurlanda og raunar Evrópu allrar og náð stjórn á landamærunum og hælisleitendamálum. Hjálpað fleirum í raunverulegri neyð í stað þess að ýta undir stjórnleysið og setja samfélagið úr skorðum.“