Þorgerður: Ráðherrar spila hver á sitt hljóðfæri

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Árni Sæberg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í ræðu sinni á Alþingi fyrr í kvöld að verkefnum næstu ríkisstjórnar fari fjölgandi. Jafnframt hlífði hún ekki ríkisstjórninni og sagði að ráðherrar spiluðu hver á sitt hljóðfæri og léku „ekki óskalag þjóðarinnar“.

„Sumarið var eins og alþjóð veit afhjúpandi fyrir ríkisstjórnina og veikleika hennar. Hver ráðherrann situr nú í sínu horni og spilar á sitt hljóðfæri. Vanalega væri það ekki vandamál fyrir utan að þau spila ekki sama lagið. Það er hvorki taktfast né áhrifaríkt. Það er ekki trúverðugt eða grípandi og þetta er ekki óskalag þjóðarinnar,“ sagði Þorgerður Katrín í upphafi ræðu.

Benti hún á að sú óvenjulega staða sé komin upp að stjórnarandstaðan þurfi ekki að eyða púðri í að skjóta á ríkisstjórnina, heldur sjái stjórnarliðar um það sjálfir.

Miðjan þurfi að koma öflugri inn

Þorgerður kvaðst hafa sterka sannfæringu um að „hugmyndafræðin á miðju stjórnmálanna“ þurfi að koma öflugri inn á þing eftir næstu kosningar. Bendir hún þá á „tvískipt hagkerfi“ íslendinga geri það að verkum að mikil mismunur sé í landinu, þar sem sumir séu nauðbeygðir til þess að nota krónuna svo aðrir geti gert upp í erlendir mynt.

„Er það land jafnra tækifæra að bóndi borgi þrefalt hærri vexti af nýja fjósinu en útgerðarmaður af nýja frystihúsinu?“ spurði hún og hélt svo áfram:

„Er það land jafnra tækifæra að starfsfólk á hótelinu borgar þrefalt hærri vexti af nýju íbúðinni sinni en eigandi hótelsins af nýju hótelbyggingunni?“

Fjármagnseigendur fá „feitari bita“

Þá sneri Þorgerður sér að stöðu ríkissjóðs og nefndi að yfirgengilegur kostnaður vegna skulda ríkisins þrengi að velferðarkerfinu.

„110 milljarðar á næsta ári – hugsið ykkur hvað við gætum gert með slíka fjármuni. Flokkarnir lengst til hægri loka augunum fyrir þessum vanda. Vinstri flokkarnir sjá ekki aðra lausn en að hækka skatta.“

Hún sagði þá að ríkisstjórnin hefði lítið annað gert en að „færa fjármagnseigendum feitari bita í formi hærri vaxta, í stað þess að ráðast að rótum vandans, lækka vaxtabyrði og skapa þannig nauðsynlegt svigrúm fyrir velferðarkerfi“.

Vill ekki leyfa „Brexit-sinnum“ að ráða

„Verkefnalisti næstu ríkisstjórnar er að lengjast, enda skilar þessi ríkisstjórn auðu á flestum sviðum,“ sagði Þorgerður Katrín og nefndi einnig að þjóðin ætti skilið stöðugleika á lána- og húsnæðismarkað, rétt eins og nágrannaþjóðirnar, „en til þess þurfum við meðal annars nýjan gjaldmiðil“.

Lýsti hún því yfir að afstaða Viðreisnar væri skýr, þ.e. að aðild að Evrópusambandinu muni auðvelda þjóðinni að ná markmiðum um að tryggja hér jöfn tækifæri og samkeppni. „Á endanum er aðild eitt stærsta velferðarmálið.“

Sagðist hún vilja leggja það í dóm þjóðarinnar hvort ganga eigi í Evrópusambandið og benti á nýja könnun Maskínu þar sem fram hefði komið að ríflegur meirihluti þjóðarinnar vildi fá að kjósa um það, en aðeins 19% væru því andvíg.

„Viðreisn vill ekki leyfa Brexit-sinnum þessa lands að ráða, heldur þjóðinni sjálfri. Þjóðin á að ráða þessu. Ég spyr: Af hverju ekki?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert