Þórhildur: „Vondu karlarnir eru vanþakkláta launafólkið“

Í ræðu sinni á Alþingi í kvöld sagði Þórhildur Sunna …
Í ræðu sinni á Alþingi í kvöld sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, Ísland vera velferðarríki fyrir fjármagnseigendur. mbl.is/Árni Sæberg

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, líkti aðgerðum ríkisstjórnarinnar við leikrit í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Hún sagði Ísland velferðarríki fyrir fjármagnseigendur og að ríkisstjórnin hefði átt stóran þátt í að skapa verðbólguna sem nú er til staðar á Íslandi. 

„Það er ákveðið leikrit í gangi“

„Það er ákveðið leikrit í gangi,“ sagði Þórhildur Sunna er hún steig upp í pontu á Alþingi í kvöld. „Leikrit sem við getum kallað „Hin stórkostlegu lífskjör almennings á Íslandi“.“

Hún sagði að í leikriti ríkisstjórnarinnar væri því haldið fram að hvergi væru lífskjör jafn góð og á Íslandi og að verðbólgan væri einungis tímabundin boðflenna sem kæmi ekki aftur vegna styrkleika krónunnar og styddist við styrka hönd Sjálfstæðisflokksins. Þá kæmi það í hlut launafólks að leika illmenni leikritsins. 

„Vondu karlarnir í þessu leikriti eru vanþakkláta launafólkið sem skilur ekki hvað það hefur það ógeðslega gott, þykjast ekki sjá veisluna og heimtar enn þá hærri laun. Það er frekjunni í þeim að kenna að Seðlabankinn neyðist til þess að hækka stýrivexti 14 sinnum í röð,“ sagði Þórhildur Sunna. 

Skyggnst á bak við tjöldin

Því næst sagði Þórhildur að ef skyggnst væri á bak við tjöld leiksýningarinnar væri sagan önnur. 

„En, ef við skyggnumst á bak við tjöldin á þessari rándýru leiksýningu blasir raunveruleikinn við. Ísland er eitt dýrasta land í heimi og þó að launin hér á landi séu vissulega há þá er launakostnaður íslenskra fyrirtækja ekki hár í alþjóðlegum samanburði.“

Þá sagði hún misskiptingu auðs á Íslandi fara ört vaxandi. „Tæplega fimmtíu þúsund manneskjur búa við fátækt á Íslandi á meðan ríkustu tíu prósent landsmanna auka hreina eign sína um hundruð milljarða á hverju ári í skjóli fákeppni og lágra fjármagnstekjuskatta. Ísland er nefnilega velferðarríki fyrir fjármagnseigendur,“ sagði Þórhildur Sunna alvarleg í bragði.

Kennir ríkisstjórninni um verðbólguna 

Þórhildur Sunna sagði ríkisstjórnina, sem átt hafi stóran þátt í því að skapa verðbólguna sem nú ríki innan samfélagsins, nú hafa strandað á eigin stefnuleysi þar sem formenn flokkanna færu um borð í ólíka báta og réru hvor í sína áttina. 

„Forseti, þetta er orðið mjög þreytt leikrit,“ sagði Þórhildur Sunna er hún lokaði ræðu sinni.  „Drögum tjöldin frá og loftum út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka