Varðhald framlengt í manndrápsmáli

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Landsréttur hefur staðfest áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir karlmanni á fertugsaldri sem ákærður er fyrir að hafa ráðist að meðleigjanda sínum með hníf á þjóðhátíðardaginn 17. júní í Drangahrauni í Hafnarfirði með þeim afleiðingum að meðleigjandinn lést af sárum sínum.

Maður­inn, Maciej Jakub Tali, pólsk­ur rík­is­borg­ari, er sakaður um að hafa stungið meðleigj­anda sinn fimm sinn­um með hníf, þar af þrjár í efri hluta búks. Ein þeirra er tal­in hafa valdið dauða meðleigj­and­ans, en stung­an náði inn í hjarta.

Málið komið fyrir dómstól

Málið var þingfest í síðustu viku og neitaði Maciej þá sök, en gekkst við því að hafa stungið meðleigjanda sinn í sjálfsvörn. Var það í takti við það sem áður hafði komið fram í gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir manninum þar sem hann sagðist hafa stungið meðleigj­anda sinn ít­rekað í sjálfs­vörn. Maður­inn var hand­tek­inn á vett­vangi morðsins þar sem hann var ataður í blóði.

Í gæsluvarðhaldsúrskurðinum kemur fram að af áverkum og fyrirliggjandi samskiptum úr samskiptaforritinu Messenger verði ekki annað ráðið en að beinn ásetningu hafi staðið til verknaðarins og afleiðinganna. Í skilaboðunum sem Maciej sendi þriðja aðila aðfaranótt 17. júní segir meðal annars: „þessi vit­leys­ing­ur fyrst drep ég hann svo hengi ég mig“.

Rökstutt með vísan í almannahagsmuni

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem Landsréttur staðfestir, er vísað til fyrri gæsluvarðhaldsúrskurða yfir manninum um að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að hann hafi gerst sekur um manndráp og að ekkert hafi komið fram síðan þá sem breyti því. Slík brot varð allt að 16 ára fangelsi eða ævilöngu og því séu almannahagsmunir til staðar að halda manninum í varðhaldi.

Er því samþykkt að verða við kröfu ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhald í fjórar vikur, eða til 5. október. Var úrskurður kveðinn upp í héraði á föstudaginn, en staðfestur í Landsrétti í gær.

Tugmilljóna kröfur

Auk refsikröfu ákæruvaldsins í málinu fara eiginkona hins látna og stjúpbarn fram á samtals 17 milljónir í miskabætur í málinu og 2,5 milljónir vegna útfararkostnaðs. Jafnframt er gerð krafa um 35,7 milljónir vegna missis framfærslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert