Vesturbæjarlaug lokað vegna netbilunar

Loka þurfi Vesturbæjarlaug tímabundið fyrir almenningi vegna bilunarinnar.
Loka þurfi Vesturbæjarlaug tímabundið fyrir almenningi vegna bilunarinnar. mbl.is/Alexander

Loka þurfi Vesturbæjarlaug tímabundið fyrir almenningi þar sem ekki var hægt að tryggja öryggi gesta, vegna víðtækrar netbilunar hjá Reykjavíkurborg. 

Bil­un kom upp í kerf­is­rekstri borgarinnar, sem út­hlut­ar IP-töl­um, í morgun. Síðan þá hefur verið unnið að því að koma kerfinu í lag, en bil­un­in veld­ur því að tölv­ur borg­ar­inn­ar ná ekki all­ar net­sam­bandi og hef­ur þar af leiðandi haft áhrif á starfsemina.

Úthluta IP-tölum í stjórnsýsluhúsunum

Ólaf­ur Sólimann Helga­son, deild­ar­stjóri vef­deild­ar hjá þjón­ustu- og ný­sköp­un­ar­sviði Reykja­vík­ur­borg­ar, segir ganga þokkalega að koma kerfinu upp aftur. 

Vefdeildin vinnur nú að því að úthluta IP-tölum í tölvur í stjórnsýsluhúsunum, Ráðhúsið og húsnæði borgarinnar í Borgartúni, samtímis er jafnframt unnið að því að koma netþjóninum upp til þess að starfsemin komist aftur í eðlilegt form, segir Ólafur. 

Endurræsa kerfið

Hann bindur jafnframt vonir við að Vesturbæjarlaug komist fljótlega aftur á netið, þó hann viti ekki nákvæmlega hversu langan tíma það mun taka að endurræsa kerfið að fullu. 

Ólafur veit ekki til þess að bilunin hafi haft áhrif á fleiri stofnanir borgarinnar, enda hafi netið virkað í þeim tölvum sem þegar voru tengdar við netið þegar bilunin kom upp. 

Ekki hefur enn tekist að greina bilunina, en Ólafur telur harla ólíklegt að gerð hafi verið árás á kerfið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert