Bjarni Felixson, kunnasti íþróttafréttamaður landsins fyrr og síðar, lést í morgun, 86 ára gamall. Eftir því sem Ríkisútvarpið greinir frá á vef sínum lést Bjarni í Danmörku þar sem hann ætlaði sér að vera við útför vinar.
Álfheiður Gísladóttir er eftirlifandi eiginkona Bjarna. Varð þeim fjögurra barna auðið en barnabörn og barnabarnabörn eru fjórtán.
Bjarni var kunnur knattspyrnumaður auk ferils síns við að greina landanum frá því sem efst var á baugi í íþróttum. Sem vinstri bakvörður hjá KR tók hann við fimm Íslandsmeistaratitlum og sjö bikarmeistaratitlum. Þá lék hann sex landsleiki fyrir Íslands hönd á árunum 1962 til 1964 og var í liði KR sem lék fyrstu Evrópuleiki íslensks liðs gegn Liverpool árið 1964.
Viðurnefnið Rauða ljónið fylgdi Bjarna um áratugi og var tekið upp í nafn annálaðs öldurhúss við Eiðistorg.
Hófst ferill Bjarna í íþróttafréttunum árið 1968 og lýsti hann leikjum um áratuga skeið, gjarnan með tilþrifum og af skörungsskap. Sum erlend borgar- og liðsheiti fengu sérstök íslensk nöfn í meðförum Bjarna.
Bjarni Felixson hlaut gullmerki ÍSÍ á sextugsafmæli sínu auk þess sem honum var veittur heiðursskjöldur KSÍ og Guðni Th. Jóhannesson forseti sæmdi hann riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir framlag sitt. Er hér aðeins fátt eitt talið til.
Bjarni Fel Sportbar bar einnig nafn Bjarna Felixsonar sem ásamt Rauða ljóninu sýnir óyggjandi að Bjarni Felixson var maður sem setti mark sitt á samfélag íslensks knattspyrnuáhugafólks áratugum saman.