Umboðsskrifstofan Eskimo mun frá og með deginum í dag heita EY Agency. Ástæða nafnbreytingarinnar er sú að forsvarsmönnum fyrirtækisins fóru að berast ábendingar fyrir um tveimur árum þess efnis að orðið eskimói þætti ekki lengur boðlegt yfir Inúíta og að yngri kynslóðin á Grænlandi tæki það sérstaklega nærri sér og liti jafnvel á það sem rasisma.
„Okkur brá við þetta enda höfðum við ekki gert okkur grein fyrir þessu. Auðvitað kom ekkert annað til greina en að virða þetta sjónarmið og fylgja tímunum,“ segja Andrea Brabin og Tinna Aðalbjörnsdóttir, eigendur EY Agency. Umboðsskrifstofan vilji byggja upp fólk en ekki brjóta það niður.
Að breyta 28 ára gömlu merki sem allir þekkja er hins vegar meira en að segja það. Í tvö ár leituðu þær að nafni sem væri ekki frátekið af öðrum, fundu nafn en hættu við. „Fyrir sex mánuðum fengum við markaðsog hönnunarsnillinginn Ásgrím Má til að taka að sér að finna nafn, gera lógó og annað markaðsefni og vefsíðu. Þá loksins fóru hjólin að snúast og nú er þetta að gerast og við gætum ekki verið ánægðari. Nú þarf orðið bara að berast að Eskimo sé orðið að EY Agency. Ég legg þó áherslu á að þetta er eingöngu nafnbreyting, engin kennitölubreyting,“ segir Andrea hlæjandi en hún hefur rekið Eskimo á sömu kennitölu frá árinu 1998.
EY Agency dregur nafn sitt af orðinu ey eða eyja. „Þetta verður áfram módel- og „casting“-skrifstofa og mantran okkar í þessum nýja búningi er „It’s all about people“,“ segir Tinna sem þýða mætti Fólk framar öllu, eða eitthvað slíkt.
„Við erum fjölskyldufyrirtæki og höfum lagt áherslu á góð og rík tengsl við bæði fólkið okkar og samstarfsaðila,“ segja þær.