Fangar á Litla-Hrauni í kjarabaráttu

Litla Hraun.
Litla Hraun. mbl.is/Sigurður Bogi

Hluti fanga á Litla-Hrauni mætti ekki til vinnu eða náms í dag til þess að mótmæla bágum aðstæðum, lágum launum, skorti á verkefnum og þeim fáu úrræðum sem þeir hafa. Formaður Afstöðu, félags fanga, telur mótmæli ekki réttu leiðina en segir fanga þó hafa takmörkuð úrræði til að berjast fyrir sínum málum. 

„Þetta eru vissulega mál sem Afstaða hefur verið að berjast fyrir síðust ár,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, í samtali við mbl.is.

Hann segir félagið samt sem áður ekki standa á bak við mótmælin eða hvetja til þeirra á nokkurn hátt. Er það vegna þess að félagið telur mótmælin ekki réttu leiðina, enda verði þau að beinast að réttum aðila. 

Hækkun á fæðisfé 

Í grunninn snýst málið um hækkun á fæðisfé, dagpeningum og þóknunum fanga, segir Guðmundur, en bætir við að Fangelsismálastofnun hafi þegar brugðist við með því að hækka fæðisfé. 

„Fangelsismálastofnun brást við með því að hækka fæðisfé örlítið, þó það sé að okkar mati ekki nóg,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Þeir [Fangelsismálastofnun] gerðu það samt og gerðu það aftur í tímann frá síðustu mánaðamótum. Þeir ætluðu samt sem áður ekkert að hækka, en sennilega hafa þeir tekið þessa ákvörðun svona í kjölfarið af þessum aðgerðum sem er mjög gott. Það þýðir að þær hafa skilað einhverju“.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags Fanga.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags Fanga. mbl.is/Arnþór Birkisson

Góð samskipti við ráðuneytið

Hækkanir á dagpeningum og þóknunum fanga eru bundnar í reglugerðir sem eru á borði dómsmálaráðuneytisins. Guðmundur segir aðgerðir fangana því verða að beinast að ráðuneytinu, en ekki Fangelsismálastofnun, til þess að hafa tilætluð áhrif. Hann bindur því vonir við að ráðuneytið taki við sér þrátt fyrir að Afstaða sé ekki þátttakandi að mótmælunum. 

Undanfarið hefur Afstaða verið í miklum samskiptum við ráðuneytið og þó Guðmundur segi það enn ekki hafa skilað neinu, þá veit hann til þess að málefnið er til umræðu. „Ég á von á að það heyrist eitthvað frá þeim á allra næstunni,“ segir Guðmundur sem kveðst ánægður með samskipti dómsmálaráðuneytisins við Afstöðu. 

„Samstarfið er alltaf að verða betra og betra. Það hefur sýnt sig að það er best að eiga samtal um þessa hluti,“ segir hann. 

Dagpeningar þeir sömu í 17 ár

Guðmundur skilur forsendu fangana samt sem áður mjög vel. Dagpeningar fanga eru rétt um 650 krónur á dag, eða um 13.000 krónur á mánuði. Þeir eiga að duga fyrir brýnustu nauðsynjum segir Guðmundur og nefnir hreinlætisvörur sem dæmi. 

Dagpeningar fanga hafa verið þeir sömu síðan í byrjun árs 2006. Síðan þá hefur verðlag breyst mikið segir Guðmundur. 

„Á sínum tíma átti þetta að haldast í hendur við ráðstöfunarfé tryggingarstofnana, en það hefur aldeilis ekki gert það. Í raun og veru var miðað við sígarettupakka á dag til að byrja með. Nú veit ég ekki hvað sígarettupakki kostar í dag, en það er töluverð hækkun.“

Bjartsýnn á breytingar

Guðmundur er þó bjartsýnn á breytingar innan málaflokksins. Hann segir mikinn mun hafa orðið á afkomu þessara mála eftir að Jón Gunnarson tók við dómsmálaráðuneytinu og segir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra, sömuleiðis hafa sýnt málaflokknum mikinn áhuga. 

„Það hefur ekkert gerst í þessum málum, það er kannski af því að við höfum ekki verið með dómsmálaráðherra sem hefur sýnt málaflokknum áhuga fyrr en undanfarið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert