Gera engan hinsegin heldur kenna virðingu fyrir fjölbreytileika

Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna '78.
Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna '78. Samsett mynd

„Þetta er náttúrulega ömurlegt, við höfum lagt okkur fram við að hafa faglega og nærgætna fræðslu, og það er ömurlegt ef það á að snúa því upp í eitthvað ógeð,“ segir Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna ’78, um nýlega umræðu um fræðslu samtakanna í grunnskólum.

Borið hefur á umræðu undanfarna daga þar sem Samtökin '78 hafa verið bendluð við kynfræðslu barna í skólum, en samtökin hafa margsinnis ítrekað að þau sinni hinsegin fræðslu, ekki kynfræðslu.

Skólastjórnendur fengið bæði símtölin

Aðspurð segir Tótla þó einnig hafa borið á stuðningi víða úr samfélaginu og að margir foreldrar hafi einnig lýst yfir stuðningi sínum við fræðsluna. Samtökin hafi heyrt bæði frá skólum og sveitarfélögum að ekki séu einungis að berast kvartanir um fræðsluna. 

„Þau eru alveg að fá bæði símtölin, það er bæði verið að hringja til að heimta að það verði örugglega tryggt að börnin þeirra fái hinsegin og kynfræðslu. Svo höfum við líka heyrt hitt sem virðist byggt á einhverjum misskilningi um hvað fer þarna fram.“

Aðlaga efnið eftir aldri 

Spurð hvert fræðsluhlutverk samtakanna sé segir Tótla að þau séu með samning við 14 sveitarfélög á Íslandi. Hins vegar séu það skólastjórnendur og námsráðgjafar skólanna sem yfirleitt óski eftir fræðslunni. 

„Stundum er þetta miðað að einhverjum sérstökum árgangi ef það er eitthvað erfitt þar, eða stundum er þetta bara almenn fræðsla – það fer bara eftir því hvað er að gerast í hverjum skóla fyrir sig.“

Hún segir fræðsluna fylgja aðalnámskrá og markmiðum hennar. „Það sem erum að skoða með hverju aldursstigi fer eftir þroska hópsins. Við náttúrulega aðlögum efnið eftir þroska og aldri.“

Kenna um fjölbreytileika og fjölskyldusamsetningar

Spurð hvort frætt sé um kynvitund, kynseiginleika og transleika á yngri stigi grunnskóla svarar Tótla: „Við í rauninni notum ekki þessi orð fyrir yngra stigið af því þau einfaldlega skilja þau ekki.“ 

Hún segir að í fræðslu á yngra stigi sé helst farið yfir fjölbreytileika mannflórunnar, til dæmis að sumir séu með sítt hár á meðan aðrir séu með stutt og að sumir klæðist buxum á meðan aðrir kjósi að klæðast kjólum.

Einnig sé farið yfir mismunandi fjölskyldusamsetningar, til dæmis að sumir eigi tvær mömmur, aðrir bara einn pabba eða að sumir alist jafnvel upp hjá ömmu og afa.

BDSM-plakat tengdist atriði Hatara

Mikið af gagnrýni síðustu daga hefur meðal annars beinst að fræðsluplakati frá Reykjavíkurborg sem unnið var í samstarfi við Samtökin '78 og var það ætlað unglingastigi. Á plakatinu er að finna ýmsar skýringar á hinsegin hugtökum þar á meðal mismunandi kynhneigðum.

Undir kynhneigð má finna skýringu á hugtakinu BDSM-hneigð, en hún er eftirfarandi: „BDSM-hneigð: að laðast að fólki sem deilir löngunum um sam­þykk og með­vituð valda­skipti.“

Spurð hvort frætt sé um BDSM-hneigð í grunnskólum segir Tótla svo ekki vera. Plakatið hafi komið til árið sem Hatari fór fyrir hönd Íslands til að keppa í Eurovision. Í kjölfar vinsælda þeirra hér á landi hafi margar spurningar vaknað upp á meðal ungmenna og því hafi verið útbúið þetta einfalda lýsing til að svara því.

„Það var mikið verið að tala um BDSM á þessum tíma og krakkarnir voru mikið að spyrja.“

Sumu fólki þyki tilvera hinsegin fólks ekki viðeigandi

Innt eftir viðbrögðum við fullyrðingum um að slík fræðsla sé ekki viðeigandi fyrir börn segir Tótla það eiga sér rætur í að sumu fólki þyki hinseginleiki eiga að vera skammarlegur og að tilvera hinsegin fólks sé ekki viðeigandi fyrir börn. 

„Við gerum engan hinsegin. Enda það er ekki í okkar valdi að gera nokkurn mann hinsegin, heldur erum við að kenna virðingu fyrir fjölbreytileikanum.“

Tótla bendir á að foreldrafélög hafi áður óskað eftir foreldrafræðslu frá Samtökunum '78 og séu þau ávallt boðin og búin til þess. Þó sé foreldrafræðsla samtakanna oft fámenn þrátt fyrir að t.d. ungmennaráð Reykjavíkur hafi ítrekað kallað eftir meiri hinsegin fræðslu fyrir foreldra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert