„Heljarstökk aftur á bak í gamaldags sósíalisma“

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég sé ekki betur en að það sem Samfylkingin er að boða er eitt risastórt heljarstökk aftur á bak í gamaldags sósíalisma,“ sagði Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í andsvari við ræðu Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.

Fjár­lög­in eru rædd í dag, og Kristrún hafði fyrr á þinginu gagnrýnt það að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins væri ósnert. Sagði hún þá 17 millj­arða króna aðhald sem boðað var í rík­is­fjár­mál­un­um myndi aðeins skapa hærri launakröf­ur í kom­andi kjaraviðræðum.

Aðspurð af Teiti sagðist Kristrún m.a. ekki hafa áhyggjur af því að hækkun fjármagnstekjuskatts úr 23% í 25%, sem hún segir aðeins hafa áhrif á tekjuhæstu 10% þjóðarinnar, myndi draga þrótt úr fyrirtækjum og verðmætasköpun úr landinu.

Hlaðborð skattahækkana

Teitur segir aftur á móti að Kristrún hafi í svari sínu kynnt „hlaðborð skattahækkana sem Samfylkingin boðar“.

„Samfylkingin boðar hér einfaldlega að bæta í og hugar ekki að því að með því er verið að draga þrótt úr fyrirtækjum, draga þrótt úr því að við aukum hér verðmæti og það kemur niður á getu fyrirtækja til að greiða laun í samræmi við þá verðmætasköpun sem er í landinu,“ sagði Teitur.

„Háttvirtum þingmanni er tíðrætt um það að fara ekki í heljarstökk,“ segir Teitur og vitnar þar í ræðu Kristrúnar sem hún flutti á þinginu í gærkvöldi. „Ég sé ekki betur en að það sem Samfylkingin er að boða er eitt risastórt heljarstökk aftur á bak í gamaldags sósíalisma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka