Kynfræðsla hluti af heilsuvernd barna

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Heilsuvernd skólabarna er ekki á vegum skólanna, hún er á vegum heilsugæslunnar,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Hún staðfestir að kynheilbrigðisfræðsla barna sé á vegum heilsugæslu hvers og eins hverfis.

„Við erum með okkar skipulag, sem sagt heilsuvernd skólabarna, sem er samræmt á landsvísu og það er samræmt efni sem er á vegum þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu,“ segir Ragnheiður.

Ekki í samstarfi við Samtökin '78

Umræða hefur verið uppi undanfarna daga varðandi kynfræðslu og hinsegin fræðslu í grunnskólum. Fer þó tvennum sögum af því hvernig slíkri fræðslu sé háttað og hafa Samtökin '78 margsinnis ítrekað að þau fari ekki með kynfræðslu í skólum, heldur hinsegin fræðslu. 

Aðspurð ítrekar Ragnheiður að Heilsugæslan sé ekki í samstarfi við Samtökin '78 eða önnur fræðslufélög varðandi kynfræðslu, heldur fari eftir fyrrnefndum viðmiðum um heilsuvernd skólabarna.

„Síðan er það ákvörðun hvers skólastjórnanda hvað annað þeir taka inn af einhverju auka.“

Miðast við aldur og þroska

Hún segir kynfræðsluna misjafna eftir skólaárum og að hún miðist við aldurs- og þroskastig barna. 

„Við komum strax inn á það í ung- og smábarnavernd að kenna það sem er kallað einkastaðirnir og svo strax í sex ára bekk byrjum við að hjálpa börnum að læra hvað þessir staðir eru og að þau ráði yfir sínum líkama sjálf,“ segir Ragnheiður. 

Í 6. bekk sé komið inn kynþroskafræðslu þar sem sé m.a. talað um breytingar líkamans, kynfæri og blæðingar. Í 9. bekk sé svo megin kynfræðslan, en þar sé farið ítarlega yfir samskipti, samþykki og mismunandi væntingar.

Hafa allir rétt á vera eins og þeir vilja vera

Þar sé líka farið yfir kynvitund og margbreytileika og lögð mikil áhersla á virðingu fyrir tilveru annarra, jafnvel þó að maður skilji ekki að fullu, að sögn Ragnheiðar. 

„Það hafa allir rétt á að vera eins og þeir vilja vera. Það er svona tónninn í fræðslunni hjá okkur líka, sem mér heyrist nú að sé eitthvað að fara fyrir brjóstið á sumum.“

Spurð hvort hún hafi orðið vör við óánægju á meðal foreldra eða jafnvel nemenda yfir kynfræðslunni kveðst Ragnheiður ekki hafa fundið mikið fyrir því. Hún segir þó ávallt eitthvað fara fyrir brjóstið á einhverjum, sérstaklega þegar gengið sé lengra en áður hefur verið gert í fræðslunni. 

Alltaf eitthvað sem er viðkvæmt

„Ég man þegar við fórum af stað á tímabili með svona verkefnahefti og þar var til dæmis talað um sjálfsfróun, og það fór fyrir brjóstið á einhverjum foreldrum. Ég man alveg þá tíma líka,“ segir Ragnheiður. 

Þá tekur hún fram að ekki sé verið að kenna börnum sjálfsfróun heldur fræða um að það sé eðlilegt fyrirbæri sem ekki þurfi að skammast sín fyrir, heldur sé hluti af því að læra að þekkja eigin líkama.

„Ég held að það sé alltaf eitthvað [málefni] sem er viðkvæmt, en við þurfum bara að læra að aðlagast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert