Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, segir að framlög til umhverfis- og orkumála verði í raun lækkuð samkvæmt nýjum fjárlögum, þvert á það sem fram kemur í sjálfu frumvarpinu.
Nýtt fjárlagafrumvarp var til umræðu á Alþingi í dag en í frumvarpinu segir að framlag til orku- og umhverfismála hafi aukist um 5,8 milljarða frá því í fyrra. Andrés segir að ekki sé tekið tillit til lækkunar á ívilnun á rafbílakaupum en bein framlög séu minni en í fyrra sé ívilnun tekin inn í reikningin.
„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er ekki að fara í rétta átt í loftslagsmálum. Hér er verið að draga saman bein framlög til umhverfis og orkumála um 1,7 milljarð króna,“ sagði hann á Alþingi í dag. „Það er verið að minnka ívilnun til kaupa á hreinorkubílum um 4,8 milljarða, án þess að sá peningur sé síðan notaður í eitthvað annað.“
„Það er alveg hægt að hætta því að styrkja fólk hægri vinstri til að kaupa Teslur og nýta peninginn í eitthvað sem skilar meiri samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. En það er ekki gert.“
Sagði hann að samkvæmt bráðabirgðaútreikningum Umhverfisstofnunnar sé ríkisstjórnin „hálfdrættingur á við það sem hún segist ætla að vera“. Þá benti hann á að samdráttur í losun fyrir árið 2030 stefni í 24% en að ríkistjórnin segist ætla að draga úr losun um 55%.
„Ríkisstjórnin er einmitt ekki að stefna í rétta átt. Losun jókst á seinustu þremur árum, fyrir utan á síðasta ári, sem hún stóð í stað,“ sagði Andrés.