Gæsluvarðhald yfir mönnunum þremur, sem grunaðir eru um að hafa reynt að smygla 160 kg af hassi til landsins með skútu, rennur út á morgun.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir málið komið á borð héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um áframhaldandi gæsluvarðhald og ákæru.
Mennirnir voru handteknir þann 24. júní og hafa setið í varðhaldi síðan þá, eða í rétt tæplega 12 vikur. Tveir þeirra voru handteknir um borð í skútunni fyrir utan Reykjanes, en sá þriðji í landi skömmu síðan. Sá elsti er fæddur árið 1970 og sá yngsti árið 2002.
Rannsókn málsins var unnin í samstarfi við lögregluyfirvöld í Danmörku og Grænlandi, en lögreglu grunaði að fíkniefnin hafi verið flutt frá Danmörku og að áætlaður áfangastaður hafi verið Grænland.