Þriðjungur hefur stytt dvalartíma á leikskólum

Breytingar á skipulagi leikskólastarfs eru sagðar hafa gengið vel.
Breytingar á skipulagi leikskólastarfs eru sagðar hafa gengið vel. mbl.is/Hjörtur

Nítján prósent barna í Kópavogsbæ eru nú sex klukkustundir eða minna í leikskólum bæjarins samanborið við tvö prósent á síðasta ári.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Kópavogsbær lét gera í upphafi skólaárs í tengslum við breytingar á skipulagi leikskólastarfs í bænum bera með sér.   

Tæplega þriðjungur stytt dvalartíma barna

Þá segir í tilkynningu að flestir leikskólar séu fullmannaðir og að dvalartími barna hafi styst. Meðal breytinga sem gerðar voru eru þær að fyrir börn sem dvelja sex klukkustundir eða minna í leikskólum bæjarins þarf ekki að greiða gjald.

„Í dag eru tæplega 2.000 börn innrituð í leikskóla Kópavogs. Tæplega þriðjungur foreldra hefur stytt dvalartíma barna sinna og um 19% barna, eru nú skráð í 6 tíma eða minna á dag, samanborið við 2% í fyrra.

Meðaldvalarstundir barna, miðað við samþykktar umsóknir, hafa farið úr 8,1 tíma haustið 2022 niður í 7,5 tíma á dag. Á síðastliðnu skólaári voru 85% barna, um 1.700, í 8 tíma dvöl eða meira en í dag eru um 56% barna, um 1.100, í 8 tíma dvöl eða meira.

Þess má geta að umsóknir breytingu á dvalartíma eru enn að berast og taka fjöldatölur því stöðugum breytingum,“ segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ. 

Mönnun gangi betur 

„Þessar fyrstu niðurstöður eru afar jákvæðar sem bendir til þess að breytingarnar, sem byggja á tillögum starfshóps skipaður fulltrúum helstu hagsmunaðila, eru að skila árangri,“ er haft eftir Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í tilkynningu. 

„Að mati leikskólastjóra gengur mönnun í leikskólum mun betur miðað við fyrri ár, dvalartími barna er að styttast og foreldrar eru að nýta sér aukinn sveigjanleika til að stytta daga vikunnar. Markmið breytinganna var að efla leikskólastarfið með betri mönnun og bættri þjónustu, ég trúi ekki öðru en að við séum að ná því markmiði.“

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs. mbl.is/Kristófer Liljar

Tóku gildi 1. september

Tillögur að breytingum á skipulagi og starfsumhverfi leikskóla voru samþykktar af bæjarstjórn Kópavogs í sumar og tóku þær gildi 1. september síðastliðinn. Í þeim felst meðal annars sex tíma gjaldfrjáls leikskóli, aukinn sveigjanleiki í skráningu dvalartíma og afsláttur dvalargjalda er tekjutengdur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka