Verðbólgan hafi verið vanmetin

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Var staðan vanmetin? Ég get alveg haldið að hún hafi verið vanmetin. Miðað við yfirlýsingar sem voru gefnar út í kringum ári síðan.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- efnahagsráðherra, á Alþingi í dag í svari við spurningu Bjarnar Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, en fjárlögin eru tekin fyrir á þinginu í dag.

Björn Leví spurði hvers vegna verðbólga hafi hækkað enn meira frá því að ríkisstjórn kynnti aðgerðir til að sporna við henni, fyrir rúmu ári.

Björn Leví sagði: „Ég er bara gaur sem skilur ekki neitt og átta mig ekki á því hvernig aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem hún kynnir fyrir rúmlega ári síðan, hafa einfaldlega hækkað verðbólguna. Né heldur hvers vegna það hafa verið átta stýrivaxtahækkanir síðan þá. Mér finnst það mjög skrítið.“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Eggert Jóhannesson

Fjármál ríkissjóðs standi með því að lækka verðbólgu

Ráðherra svaraði Birni Leví meðal annars með því að segja að „ef þingmaður heldur að það séu ríkisfjármálin í landinu sem ráða verðbólgu í landinu þá er það mikill misskilningur“. Ráðherra sagði þó efnahagsmál stjórnvalda mikilvægan þátt í því að koma verðbólgunni niður.

„Var staðan vanmetin? Ég get alveg haldið að hún hafi verið vanmetin. Miðað við yfirlýsingar sem voru gefnar út í kringum ári síðan. Mér fannst látið í það skína að menn væru hættir að hækka vexti og það væri óþarfi að halda áfram. Mér fannst í það skína að hér hefðu verið gerðir ábyrgir kjarasamningar, sem seinna kom í ljós að væru umfram framleiðinivexti í landinu,“ sagði Bjarni.

„En ef við skoðum afkomubata ríkissjóðs þá er alveg augljóst að fjármál ríkissjóðs hafa staðið með því að lækka verðbólgu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka