Auðvelt að höfða til tilfinninga um að börn séu í hættu

Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands.
Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands. Samsett mynd

„Í þessum flókna heimi þar sem er margt að gerast þá er bara þægilegt að beina sjónum að trans fólki og gera það að einhvers konar blórabögglum,“ segir Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands. 

Í samtali við mbl.is segir Gyða ekki ólíklegt að orðræða gegn hinsegin fræðslu og hinsegin fólki sé uppsprottin af angist og óróleika yfir heimi sem breytist ört og hrófli við skilningi fólks á sjálfu sér og stöðu sinni í heiminum. 

„Það eru náttúruhamfarir, loftslagsbreytingar, það er stríð í Úkraínu o.s.frv.,“ segir Gyða og segir mörgum þykja breytingarnar um of. Í kjölfarið spretti upp hugmyndir hjá sumum um að best væri að hverfa aftur til fyrri tíma. 

Eitthvað sem skýtur reglulega upp kollinum

Ýmsar sögur hafa farið af því hvað fari fram í hinsegin fræðslu Samtakanna '78 í skólum og henni jafnvel verið líkt við barnaníð. Hafa m.a. verið á sveimi sögusagnir um að fræðslunni fylgi ítarlegar lýsingar á kynlífsathöfnum og börnunum sýnt klám þrátt fyrir að samtökin hafi ítrekað tekið fram að það geri þau vitaskuld ekki, þau fari ekki með kynfræðslu yfir höfuð. 

Aðspurð hvort það sé birtingarmynd þess að hinsegin fólk sé smættað niður í kynlífið sitt, svarar Gyða játandi.

„Þetta er auðvitað ákveðið frástef, en ef maður skoðar sögu baráttu hinsegin fólks, þá er þetta eitthvað sem reglulega skýtur upp kollinum.“

Hugmyndir um að vegið sé að fjölskyldunni

Hún segir orðræðuna sem sprottin sér hér upp á Íslandi skírskota til orðræðu í Bandaríkjunum þar sem hafi að undanförnu verið þrengt allverulega að réttindum kvenna, hinsegin og trans fólks með ýmsum hætti. Einnig svipi henni til orðræðu í Suður-Ameríku og Austur-Evrópu, þar sem kaþólska kirkjan hafi sterk ítök. 

„Þar er mjög sterk hugmynd um að það sé verið að vega að fjölskyldunni, en þá eru auðvitað mjög íhaldssamar og þröngar skilgreiningar á því hvað eru fjölskyldur,“ segir Gyða.

„Ef þú nærð að höfða til tilfinninga fólks á þann hátt að börn séu í hættu, þá er mjög auðvelt að fá fólk til þess að styðja við einhvern málstað.“

Andstaða lúrt undir yfirborðinu

Hún bendir á að orðræða meðal þjóðar sem áður hafi stært sig af því að vera umburðarlynd, hinsegin paradís geti snúist svo hratt, bendi til þess að fyrir hafi aðeins ríkt yfirborðssamþykki. 

„Eftir því sem sýnileikinn verður meiri og eftir að það verða fleiri ávinningar af baráttunni, þá um leið getur það kveikt ákveðna andstöðu sem hefur lúrt undir yfirborðinu,“ segir Gyða. 

Ótti fólks við að hinsegin fræðsla geri börn hinsegin eða geri fólk trans lýsi viðhorfum um að það sé slæmt eða minna ákjósanlegt að vera annaðhvort

Ekki óalgengt að jaðarsettir hópar aðgreini sig

Spurð um skyndileg upptök hreyfinga eins og Samtakanna 22, segir Gyða ekki óalgengt að innan jaðarhópa skapist stigveldi og samtökin séu dæmi um slíkt.

Samtökin 22 eru yfirlýst hagsmunasamtök homma og lesbía, sem leggjast gegn hugmyndum um fleiri en tvö kyn, sem þau telja ógn gegn samkynhneigðum og börnum. Gagnrýnendur samtakanna hafa lýst þeim sem haturssamtökum gegn trans fólki.

„Kannski er þetta merki um að vilja aðgreina sig frá einum hópi og sækja sér einhvers konar samfélagslega stöðu,“ segir Gyða og segir söguna sýna að jaðarsettir hópar aðskilji sig oft hvor frá öðrum, þrátt fyrir að oft sé þess vænst að samstaða ríki milli hópa.

Ekki nóg að njóta réttinda á forsendum ráðandi hópa

Hún segir að svipuð dæmi um skautun sé að finna innan feminískrar baráttu.

„Frjálslyndum femínistum þykir samfélagsgerðin góð og gild fyrir utan að konur hafi ekki sömu stöðu og karlar, á meðan róttækari nálganir snúast um það að við þurfum að umbylta samfélagsgerðinni til að það rými fjölbreytileika og konur í ólíkri stöðu,“ segir Gyða. 

Hún segir það sama að mörgu leyti eiga við varðandi ólík viðhorf varðandi réttindi hinsegin fólks. 

„Það er ekki nóg að baráttan snúist um að njóta réttinda á forsendum ráðandi hópa, heldur snýst þetta um að skapa meira rými fyrir allar manneskjur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert