„Ef mynstrið heldur áfram fáum við gos í júní“

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur grínast með að gos gæti hafist á …
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur grínast með að gos gæti hafist á þjóðhátíðardaginn á næsta ári. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði við Há­skóla Íslands, segir ekki koma sér á óvart ef aftur fari að gjósa á Reykjanesskaganum innan nokkurra mánaða.

„Landrisið er enn í gangi og mér sýnist að ef þróunin heldur áfram eins og hún hefur gert þá á ég frekar von á gosi á Reykjanesskaganum á næstu mánuðum. Það var einhver að segja við mig um daginn að hafi liðið 321 dagur á milli fyrsta goss og annars goss. Og svo 318 dagar á milli annars og þriðja goss. Ef þetta mynstur heldur áfram þá erum við að fá gos einhvern tímann í júní á næsta ári. Ég var svona gantast með það að gosið yrði 17. júní,“ segir Þorvaldur við mbl.is.

Aukin jarðhitavirkni

Þorvaldur segir að skoðuð hafi verið skjálftavirkni á milli Keilis og Trölladyngju. Þar hafi verið töluverð skjálftavirkni. 

„Við tókum eftir svokölluðum skjálftaskugga á meðan á gosinu stóð í Litla-Hrút sem bendir til þess að það sé vökvi á frekar grunnu dýpi, 4 kílómetra dýpi að mig minnir. Síðan höfum við líka orðið vör við aukna jarðhitavirkni á sama svæðinu. Það er spurning hvort þarna hafi komið einhver kvika inn, sitji grunnt en hafi hitað grunnvatnið og aukið þar með jarðhitavirknina,“ segir Þorvaldur.

Hann segir að ef það reynist rétt þá séu ákveðnar líkur á að virknin sé að færa sig austur eftir og yfir í Trölladyngju og síðar í Krýsuvíkurkerfið.

„Þá horfir sviðsmyndin aðeins öðruvísi við stór Reykjavíkursvæðinu. Í Krýsuvíkureldunum á 12.öldinni þá gaus á allri sprungureininni í Krýsuvík og þar fór hraun í sjó fram sunnar á skaganum og norðan megin sem er Kapelluhraunið vestan við Hafnarfjörð,“ segir Þorvaldur.

Gæti þýtt stærra gos í Kötlu

Þorvaldur og félagar hans fylgjast einnig grannt með Kötlu. Hann segir vísindamenn vera að læra hvernig hún býr sig undir eldgos.

„Við höfum aldrei fengið tækifæri til að fylgjast með því með mælingum og það er spennandi að því leytinu til. En eftir sem lengra líður frá síðasta gosi, sem var fyrir 105 árum, veldur manni það áhyggjum. Það gæti þýtt að við fengjum stærra gos. Ef Katla heldur sínum takti þá myndi maður halda að hún myndi gjósa á innan við næstu þrjátíu árum,“ segir Þorvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert