Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms frá í febrúar á síðasta ári í máli sem snéri að ferðatíma flugvirkja hjá Samgöngustofu og skilgreiningu hans sem vinnutíma. Hafði flugvirkinn betur gegn íslenska ríkinu en leitað var eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins í málinu.
Lögmaður flugvirkjans, Jón Sigurðsson hæstaréttarlögmaður, telur málið ekki aðeins fordæmisgefandi fyrir flugvirkja og ekki aðeins fyrir opinbera vinnumarkaðinn heldur fyrir allan almennan vinnumarkað einnig.
Segir hann í samtali við mbl.is að þar sem málið reyndi á túlkun á Evróputilskipun sem innleidd er í EES-rétt og um leið íslensk lög þá hafi verið farið fram á ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í Lúxemborg um túlkun á vinnutímaskilgreiningu tilskipunarinnar.
„Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að tíminn sem fór til ferðalaganna sé vinnutími. Bæði dómur Landsréttar í dag og héraðsdóms á síðasta ári voru efnislega í samræmi við álit EFTA-dómstólsins.
Héraðsdómur dró frá viðurkenndum vinnutíma tuttugu mínútur í upphafi og lok ferðar vegna áætlaðs tíma í innstimplun og útstimplun en Landsréttur féllst ekki á að slíkur frádráttur ætti við.“
Í málinu var deilt um hvort ferðatími flugvirkjans frá Íslandi til Ísraels og til baka annars vegar og frá Íslandi til Sádí-Arabíu og til baka hins vegar teldist vinnutími. Flugvirkinn fékk aðeins greitt fyrir dagvinnutíma á ferðalagi sínu en ekki þann tíma sem féll utan dagvinnu og við það var hann ósáttur.
Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins kvað á um að sá tími sem færi í ferðalög starfsmanns utan hefðbundins vinnutíma til áfangastaða í vinnuferðalögum teldist vinnutími. Héraðsdómur tók undir það sem Landsréttur hefur nú staðfest.
Segir Jón að áður hafi reynt á sambærilegt álitaefni fyrir EFTA-dómstólnum. Í fyrra skiptið leitaði Hæstiréttur Noregs eftir ráðgefandi áliti dómstólsins um það hvort ferðatími norsks lögreglumanns teldist vinnutími. Taldi dómurinn svo vera. Síðan kemur mál flugvirkjans í ofanálag nokkrum árum síðar.
Íslenska ríkinu var gert að greiða flugvirkjanum fimm milljónir króna í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti en hluti af þeirri fjárhæð fer í málarekstur fyrir EFTA-dómstólnum.