Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni, gegnir formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en formennska þeirrar nefndar er á forræði stjórnarandstöðunnar. Óljóst er hver tekur við formennskunni komi til þess að mannabreytingar verði þar.
Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í dag verða breytingar á formennsku í fastanefndum Alþingis á miðju kjörtímabili, samkvæmt samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna. Munu þær verða endanlega ákveðnar um komandi helgi.
Hugsanlegt er talið að Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, taki við formennsku í einhverri fastanefnd þingsins og er einkum rætt um að hann leysi Bryndísi Haraldsdóttur af hólmi í allsherjar- og menntamálanefnd. Þó kunna aðrir möguleikar að vera í stöðunni og er efnahags- og viðskiptanefnd nefnd í því sambandi. Þar hefur Guðrún Hafsteinsdóttir gegnt formennsku, en hún tók við embætti dómsmálaráðherra í sumar.
Fleiri eru reyndar nefndir til sögunnar sem mögulegir formenn nefndarinnar. Þannig er talið mögulegt að Bryndís Haraldsdóttir taki við formennskunni, en einnig hefur nafn Teits Björns Einarssonar borið á góma.
Ótengt þessum vendingum þá er ljóst að Bryndís Haraldsdóttir mun taka við sem forseti Norðurlandaráðs á þingi ráðsins í október, en hún er nú formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Ljóst er að því embætti fylgja ýmsar annir sem kunna að rýra möguleika hennar til að formennsku í einhverri af fastanefndum Alþingis.
Við þetta má bæta að auk framangreindra breytinga á formennsku í fastanefndum Alþingis munu einhverjar tilfærslur verða í mönnun nefndanna, en ekki er ljóst á þessu stigi hverjar þær verða. Gert er ráð fyrir að þingflokkar stjórnarflokkanna fundi um helgina til þess að leggja lokahönd á mannabreytingarnar sem síðan verða kunngjörðar á mánudaginn, eins og fyrr segir.