Í skóla „fyrir framtíð sem er verið að rústa“

Fjöldi umhverfissinna tók þátt í alheimsverkfalli þar sem þess var …
Fjöldi umhverfissinna tók þátt í alheimsverkfalli þar sem þess var krafist að ríkisstjórnin hætti notkun jarðefnaeldsneytis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umhverfissinnar komu saman fyrir utan Alþingi í dag og kröfðust þess að ríkisstjórnin bannaði hvalveiðar hér á landi. Mótmælin voru hluti af alheimsverkfalli - föstudagar fyrir framtíðina- þar sem fólk um allan heim krafðist þess í dag, að ríkisstjórnir þeirra hættu notkun jarðefnaeldsneytis. 

Meðal ræðumanna á mótmælunum var Anahita Babaei, önnur þeirra sem hlekkjaði sig við möstur hvalveiðiskipanna Hvals 8 og 9 í byrjun mánaðar. Ida Karólína Harris, ungur umhverfissinni, segir fjölmarga hafa mætt á mótmælin. 

Anahita, önnur kvennanna sem festi sig við möstur hvalveiðibátanna, var …
Anahita, önnur kvennanna sem festi sig við möstur hvalveiðibátanna, var meðal ræðumanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta voru rosalega góðar ræður um það hvernig við þurfum að standa upp fyrir hvölunum, að þeir séu í útrýmingarhættu og að það þurfi að stöðva hvalveiðar,“ segir Ida. 

Ida segir ræðurnar hafa verið mjög góðar.
Ida segir ræðurnar hafa verið mjög góðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Föstudagar fyrir framtíðina

Ida hefur í nokkur ár skrópað í skólanum á hverjum einasta föstudegi til þess að taka þátt í alheimsverkfallinu, sem ber yfirskriftina Föstudagar fyrir framtíðina. Hreyfingin byrjaði á verkfalli Gretu Thunberg fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi, með það að markmiði að beina athygli að loftslagsmálum og aðgerðum sem þarf að grípa til. 

„Mér finnst þetta skipta máli af því að þetta er framtíðin mín, við erum að skrópa í skólanum til að gera þetta og mér finnst það alveg sjálfsagt. Þetta er málefni sem hefur áhrif á framtíðina okkar, af hverju á ég að fara í skóla til þess að læra fyrir framtíð sem er verið að rústa í byggingunni [Alþingishúsinu] nánast við hliðina á okkur?“ segir Ida, sem verður átján ára á morgun og er nemandi í Kvennaskólanum í Reykjavík. 

Hún er ánægð með þá sem mættu og segir gott að finna fyrir samstöðunni. Þá vonast hún til þess að Alþingismenn fari að hlusta á kröfurnar og grípi til aðgerða. Þó segir hún nokkra Alþingismenn duglega að kíkja út til þeirra á föstudögum og nefnir meðal annars Andrés Inga Jónsson og Björn Leví Gunnarsson, þingmenn Pírata. 

Ida hefur í nokkur ár skrópað í skólanum á hverjum …
Ida hefur í nokkur ár skrópað í skólanum á hverjum einasta föstudegi til þess að taka þátt í alheimsverkfallinu, ásamt öðrum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlustið á vísindin

Aðalkröfur mótmælanna að þessu sinni voru að ríkisstjórnir hættu notkun jarðefnaeldsneytis. Ida segist í gegnum tíðina hafa talað við mjög marga Alþingismenn sem segjast allir ekki geta gert neitt.  

„Ég er ósammála því, miðað við það sem ég get gert þá geta þau gert meira. Þeim líður öllum eins og þau geti ekki gert neitt sjálf, en meira að segja Alþingismenn þurfa að vinna saman. Þau þurfa bara að hætta þessu og halda áfram, vera sá sem þorir að segja og gera eitthvað,“ segir Ida. 

Til þeirra sem trúi að loftslagsbreytingar eigi sér stað segir Ida:

„Hlustið á vísindin, takið þau alvarlega, hugsið um börnin ykkar og hugsið um barnabörnin. Hugsiði síðan um ykkur sjálf, hvað þið eruð að gera og til hvers? Er ástæðan góð eða er það bara af því að allir aðrir eru að segja, eða gera eitthvað?“

Mótmælendur útbjuggu sér skilti á staðnum.
Mótmælendur útbjuggu sér skilti á staðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert