Ekki er útilokað að erlend ríki grípi til aðgerða gegn þeim tveimur íslensku ríkisborgurum sem í boði rússneskra stjórnvalda tóku nýverið þátt í „kosningaeftirliti“ á hernumdum svæðum í Úkraínu. Kemur þetta fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Fréttamiðillinn EUobserver er í hópi þeirra miðla sem greint hafa frá þátttöku tveggja Íslendinga í „kosningaeftirliti“ með „kosningum“ í Kherson-héraði. Þar er m.a. vísað í umfjallanir í Rússlandi þar sem annar þessara Íslendinga var til viðtals. Þar lofar hann framkvæmd „kosninganna“ á hernumdu svæðunum og gagnrýnir um leið fyrirkomulag kosninga á Íslandi.
„Íslensk stjórnvöld fordæma allar gervikosningar sem haldnar eru á hernumdum svæðum Úkraínu. Sá gjörningur sem átti sér stað í Kherson er marklaus, enda voru umræddar „kosningar“ í trássi við alþjóðalög, eins og allur stríðsrekstur Rússlands í Úkraínu,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins.
Ráðuneytið ítrekar að umræddir Íslendingar starfi „ekki með neinum hætti“ í umboði íslenskra stjórnvalda. Að auki hafi þeir enga þekkingu á eftirliti með kosningum.
„Ísland sendir reglulega fulltrúa til kosningaeftirlits á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem hefur um árabil sinnt slíku eftirliti í samræmi við viðurkennda starfshætti. Slíkir fulltrúar hafa sérþekkingu og þjálfun til þess að sinna slíku eftirliti,“ segir ráðuneytið. Öll umræða um „eftirlit“ með þessum gervikosningum sé skrumskæling.
Íslendingarnir sem um ræðir eru Erna Ýr Öldudóttir og Konráð Magnússon.
Fréttin hefur verið uppfærð.