Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, hefur verið sendur í leyfi.
Þetta staðfestir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. Vísir greindi fyrst frá.
Í svarinu segir enn fremur að Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild, gegni nú tímabundið stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns í miðlægri rannsóknardeild.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn er yfirmaður deildarinnar.
Ekki fengust svör við því hvers vegna Margeir var sendur í leyfi eða hvort um tímabundið eða ótímabundið leyfi sé að ræða.
Segir í svarinu að embættið geti að öðru leyti ekki tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.