Neyðarsöfnun fyrir Marokkó og Líbíu

Rauði krossinn á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun vegna …
Rauði krossinn á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rauði krossinn á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu. Í Marokkó var mannskæður jarðskjálfti og í Líbíu hafa mörg þúsund manns látíð lífið eftir að stíflur brustu í kjölfar mikils óveðurs.

Í tilkynningu frá Rauða krossinum segir:

„Þó að um tvo ótengda atburði sé að ræða var ákveðið að hrinda af stað sameiginlegri söfnun vegna þess hve skammt var stórra högga á milli, en peningunum sem safnast verður ráðstafað út frá því hvar þörfin er mest.

Í báðum þessum skelfilegu hamförum létust þúsundir einstaklinga og heilu fjölskyldurnar þurrkuðust út. Í jarðskjálftanum í Marokkó urðu afskekkt svæði í Atlas-fjöllum einna verst úti og þar er þörf fyrir mikinn stuðning. Í Líbíu skoluðust heilu hverfin í borginni Derna burt í flóði, mannfallið er gríðarlegt og þau sem lifðu af standa frammi fyrir mikilli eyðileggingu og þjáningu.

Verkefnin gríðarlega umfangsmikil

Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Marokkó og Líbíu hófu þegar í stað að veita neyðaraðstoð, þar á meðal að sinna leit og björgun og veita fyrstu hjálp og sálrænan stuðning, en verkefnin sem þau standa frammi fyrir eru gríðarlega umfangsmikil. Meðal annars er mikil þörf á neyðarskýlum, heilbrigðisþjónustu, vatns- og hreinlætisaðstöðu, mat og öðrum nauðsynjum.

Rauði krossinn á Íslandi styður neyðarviðbragð Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Íslenska þjóðin hefur löngum stutt hjálparstarf Rauða krossins af miklum krafti og í gegnum þessa söfnun getur almenningur rétt þolendum þessara hörmunga hjálparhönd.“

Hægt er að styrkja neyðarsöfnunina með eftirfarandi hætti:

  • SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)
  • Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
  • Kass: raudikrossinn eða 7783609
  • Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert